145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[11:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru fleiri mál í þinginu sem fjalla um þessa hluti. Ég er t.d. með frumvarp fyrir þinginu sem með sínum hætti fjallar um frelsi til að taka eigin ákvarðanir og þar er verið að þrengja að heimildum til þess að taka erlend lán. Þar hefur þingmaðurinn haft uppi þau sjónarmið að við ættum að ganga lengra í því að herða að frelsinu, ekki mætti opna fyrir það að sumir gætu tekið erlent lán jafnvel þótt þeir væru varðir og gætu sett fram nægar eignir, það væri ósanngjarnt að aðrir gætu ekki gert það, þess vegna ætti að banna öllum það. Svona er nú sumu snúið á hvolf.

Það er sömuleiðis athyglisvert að hlýða á þetta frá hv. þingmanni sem lengst af hélt uppi þeim málflutningi á þinginu að við mundum aldrei geta stigið þau skref sem við erum að stíga núna án þess að vera í viðræðum við Evrópusambandið og með því að stefna að upptöku evru. Eina leiðin fyrir okkur Íslendinga til þess að losna að nýju út úr höftunum og tryggja frjálsa fjármagnsflutninga væri að vera komnir inn í ERM II og vera í skjóli Evrópusambandsins og myntsamstarfsins sem þar er og leiðin þangað inn væri eina leiðin fyrir okkur. En nú erum við að sýna fram á að þrátt fyrir að ekkert slíkt standi fyrir dyrum erum við á okkar eigin forsendum að tryggja að nýju með þessu frumvarpi stór skref í átt að frjálsum fjármagnsflutningum og þeim verður fylgt eftir með frekari skrefum, næsta skref um áramótin og svo frekara skref á næsta ári.