145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[11:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gleðiefni að þetta mál sé komið hingað og sérstaklega gleðilegt að það geti fengið málsmeðferð þingsins í rólegheitunum þannig að það finnist tími til að fara vel í það. Mig langar aðeins að líta til framtíðar en þó með hliðsjón af fortíðinni, þá sér í lagi hvernig bankarnir stækkuðu langt umfram það sem íslenska hagkerfið gat nokkurn tímann borið við hrunið 2008, eins og frægt er orðið og ég veit að hæstv. ráðherra er mjög fróður um. Á sínum tíma ef maður hefði spurt Fjármálaeftirlitið hvert hlutverk þess væri þá hefði það náttúrlega farið í formlegt hlutverk sitt og hefðum við spurt hvort Fjármálaeftirlitið liti á efnahagsstöðugleika sem eitt af markmiðum sínum þá hefði Fjármálaeftirlitið sagt já. Hluti af vandanum, og eitt af því sem ég tók mikið eftir fyrir hrun og ég óttast að verði aftur til staðar, er sú pæling að við þurfum að fara varlega í því að tala um hagkerfið, varlega í það að benda á hvað er að í hagkerfinu. Ég óttast að með tímanum, ef við leyfum okkur aftur slíkan hugsunarhátt, byggist upp spenna sem verður síðan ekki hægt að ráða við nema með svokallaðri leiðréttingu, þ.e. efnahagshrunið 2008.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann telji að það sé mögulegt til lengri tíma að afnema fjármagnshöft með öllu, sem ég veit að er hluti af þessari aðgerð hér. En þegar það skref verður tekið til fulls, sem ég ætla að leyfa mér að segja „þegar“ um, hvernig munum við koma í veg fyrir það að hagkerfið spennist svo mikið upp sem raun bar vitni á sínum tíma? Hvernig komum við í veg fyrir það með íslenskri krónu að slíkar aðstæður myndist hér að við þorum ekki að taka á vandanum og getum ekki gert það fyrr en það er orðið of seint og allt komið í bál og brand?