145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[11:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Við hljótum öll að fagna því að hægt er að stíga eitt skref enn í því að reyna að losa hér um fjármagnshöftin, enda hefur það verið stefna stjórnvalda allra, allt frá hruni, að reyna að reisa við efnahaginn þannig að við með tíð og tíma losnuðum út úr þessum höftum. Við hljótum öll að gleðjast yfir því.

Það sem slær mig samt mest við að lesa um þær aðgerðir sem nú eru settar á blað er að það eru tvær þjóðir í þessu landi. Það er annars vegar fámenn þjóð sem á fullt af peningum og er á háum launum og getur fjárfest og keypt sér eina fasteign í útlöndum á ári. Það er sannarlega mjög í þágu almennings í landinu. Síðan segja menn að það sé lyft hömlum af ferðagjaldeyri. Ferðagjaldeyrinn hefur verið þannig að ég held að ekkert venjulegt fólk hafi komist upp í hámarkið. Þessar aðgerðir sýna svart á hvítu hina stóru plágu sem er í þjóðfélaginu og hún er að þjóðarkökunni er vitlaust skipt. Það þarf að skera hana upp á nýtt. Venjulegt fólk þarf að fá stærri hluta af þjóðarkökunni en það fær í dag. Þeir sem nýta auðlindirnar þurfa að borga í sameiginlega sjóði þannig að við getum haldið uppi góðu velferðarþjóðfélagi.