145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[11:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að þetta mál sé komið fram og, eins og hv. þingmaður fór hér yfir áðan, fagna því að við getum tekið þetta í mátulegum rólegheitum hér í þinginu, í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Það er mjög gott að svo sé.

Mig langar aðeins að nefna eitt og reyna að koma smáskilaboðum til þjóðarinnar sjálfrar. Ísland er og verður áfram í sérstöðu vegna smæðar hagkerfisins. Það lítur allt út fyrir að í bili verðum við einnig í sérstöðu hvað varðar smæð gjaldmiðilsins sem við notum í okkar daglega lífi og fjárfestingum og fleiru. Það er ekki alslæmt. Þótt ég geti komið hingað og haldið ræður um galla krónunnar er hún ekki alslæm. Eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fór stuttlega yfir áðan þá er kostur krónunnar sá að hún getur tekið mjög miklum breytingum en sömuleiðis er það galli fyrir fólk sem ýmist kann ekki að bregðast við slíkum aðstæðum eða er hreinlega ekki í aðstöðu til að bregðast almennilega við slíkum aðstæðum. Það eru kostir og gallar. Það eru engar töfralausnir í þessum málum að mínu mati.

En aðeins á uppbyggilegri nótunum, frekar en að reyna sífellt að finna sökudólginn, langar mig að leggja það til við fólk að það kynni sér fjármál. Það virðist nefnilega vera í íslenskri menningu ákveðin andúð á peningum sem fyrirbæri. Ég hygg að það sé rangur hugsunarháttur. Að hafa andúð á fjármálum og andúð á skilningi á fjármálum vil ég meina að valdi miklum skaða. Peningar eru verkfæri, alveg eins og tungumál. Það að kenna peningum um græðgi er svolítið eins og að kenna tungumálinu um dónaskap. Það er ekki rökrétt. Fólk ætti ekki að tileinka sér þann hugsunarhátt. Ég fullyrði að ef Íslendingar væru upp til hópa jafn góðir í fjármálum og þeir eru til dæmis í tónlist eða einhverju sem einkennir íslenska menningu þá gætum við verið mjög framarlega á heimssviðinu í fjármálum. Í stað þess að vera til athlægis, eins og við vorum árið 2009 og 2010, gætum við orðið til fyrirmyndar. En það krefst þess að við höfum það viðhorf gagnvart fjármálum að við berum virðingu fyrir peningum sem verkfæri, óháð gildismati og því hvernig maður notar peninga, alveg eins og það skiptir meira máli hvernig við notum tungumálið en nákvæmlega hvaða tungumál maður notar til þess að tjá sig.

Það er mikil tortryggni í samfélaginu gagnvart fjármálakerfinu, gagnvart bönkum, gagnvart fólki sem veit mikið um fjármál. Ég hygg að þeirri tortryggni megi eyða, kannski ekki eyða en alla vega koma til móts við, með því að fólk tileinki sér metnað fyrir því að skilja hugtökin á bak við orðaflauminn sem kemur fram í fjölmiðlum og í ræðum stjórnmála- og fjármálamanna í kringum hagkerfið. Ísland er áfram í þeirri stöðu að það þarf ekkert mikið að fara úrskeiðis hér til þess að það leiði til neyðarástands. Ísland er mjög veikburða gagnvart miklum sveiflum vegna þess að Ísland er afskaplega lítið og með afskaplega lítinn gjaldmiðil. Við verðum áfram með vandamál á borð við það að við þurfum að hafa hér verðtryggingu, að mínu mati í það minnsta, alla vega að verulegu leyti. Ég hygg að við munum alltaf þurfa að búa við einhvers konar höft. Ekki þau sem við lifum við núna en einhvers konar höft. Ég hygg að Seðlabankinn muni áfram vilja vita allt um hagkerfið og halda áfram sínum stanslausa þrýstingi á að fá upplýsingar langt umfram það sem ætti að teljast eðlilegt í frjálsu samfélagi, að mínu mati. Ég ætla ekki að eyða tíma í það að fara yfir Hagstofumálið á sínum tíma.

En þrátt fyrir allt held ég að það góða sem hinn almenni Íslendingur geti gert sé að kynna sér fjármál, kynna sér hugtökin, ekki leyfa þessum málaflokki að vera eitthvert skrímsli. Ekki láta þessa orðræðu og þau orð sem hér eru notuð mikla hlutina fyrir sér. Fólk á ekki að vera hrætt við að kynna sér málin. Það á ekki að vera hrætt við að skilja peninga.