145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

Umhverfisstofnun.

674. mál
[12:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki miklu nær. Er þá rétt skilið hjá mér að þetta frumvarp sem hér er lagt fram snúist fyrst og fremst um form og framsetningu laganna, fjalli ekki um inntak þeirra og að enn standi yfir endurskoðun á lögum um Umhverfisstofnun í ráðuneytinu? Er það svo? Og þar muni verða tekið tillit til þeirra athugasemda sem Landvernd var með? Ég bið hæstv. ráðherra þá að staðfesta að málið sé þar með opið. Þá spyr ég líka ráðherrann: Hvað gerir það að verkum að þetta mál þarf að verða að lögum ef vinna við endurskoðun laga um Umhverfisstofnun stendur enn yfir í ráðuneytinu? Er þá ekki rétt að ljúka þeirri endurskoðun og koma svo bara með málið fullbúið til þingsins, ekki síst í ljósi þess að við erum að nálgast kosningar? Ég velti fyrir mér verklaginu og forgangsröðuninni hjá ráðherranum.

Síðan langar mig að spyrja sérstaklega um 9. gr. frumvarpsins sem lýtur að almannarétti og útivist. Þar er auðvitað um að ræða eitt af þeim meginstefjum sem hafa verið undir í umfjöllun um náttúruvernd undanfarin ár vegna aukinnar nýtingar náttúru landsins í þágu ferðaþjónustu. Við vitum að það hefur ágerst töluvert að ferðaþjónustan nýti sér náttúruna þannig að selja ferðir inn á tiltekin svæði o.s.frv. Má þá efast um að þar liggi meginprinsipp til grundvallar sem snúast um almannaréttinn eins og hann var hugsaður í upphafi.

Nú liggur fyrir að Alþingi samþykkti bráðabirgðaákvæði við náttúruverndarlög, nr. 60/2013, en þar var sérstaklega fjallað um að ráðuneytinu væri falið að skoða þetta samspil almannaréttarins við ferðaþjónustuna og aðra nýtingu. Ég spyr hæstv. ráðherra til viðbótar: Hvað líður þeirri vinnu? Ráðuneytið á að leggja fram frumvarp (Forseti hringir.) þar að lútandi á haustdögum ef ég man rétt.