145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

fjölskyldustefna 2017–2021.

813. mál
[12:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðherra um samhengi tveggja stjórnartillagna. Hér er fjölskyldustefna og aukinn stuðningur við barnafjölskyldur, stjórnartillaga á dagskrá, en ég skildi ráðherrann þannig að í ríkisfjármálastefnu sem var til afgreiðslu í gær hafi ráðherrann ekki getað stutt þá tillögu ríkisstjórnarinnar vegna þess að þar væri ekki gert ráð fyrir þeim stuðningi sem hún teldi að þyrfti að vera við barnafjölskyldur. Ég spyr ráðherrann: Hvernig hanga þessar tvær stjórnartillögur saman? Er í þessari þingsályktunartillögu verið að gera ráð fyrir einhverjum hlutum sem er svo ekki gert ráð fyrir neinum peningum í í ríkisfjármálaáætluninni?

Í öðru lagi. Meðan ráðherrann talaði lýsti formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, því yfir í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að ráðherra sem ekki styddi kjarnamál ríkisstjórnarinnar gæti ekki vænst þess að fá framgang sinna eigin mála. Ég spyr hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra þess vegna hvort það sé í sjálfu sér ekki tímasóun að ræða þetta ágæta þingmál frekar ef það liggur fyrir að samstarfsflokkurinn hyggur ekki á afgreiðslu mála ráðherrans, en hann fer auðvitað með stjórn þingsins fyrir hönd stjórnarflokkanna, og hver viðbrögð hennar eru við slíkum yfirlýsingum.