145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

fjölskyldustefna 2017–2021.

813. mál
[12:41]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að fagna þessari stefnu frá hæstv. félagsmálaráðherra og tel þetta mjög til bóta og löngu tímabært að við myndum okkur skýra og staðfasta fjölskyldustefnu með áherslu á börn og barnafjölskyldur. Það hefur kannski ekki farið fram hjá neinum að í störfum mínum á Alþingi hef ég haft svolítið mikinn áhuga á málefnum barna og ungmenna og því hvernig við getum búið til samfélag jafnræðis sem hlúir sérstaklega að börnum. Þrátt fyrir að hér sé margt mjög gott á Íslandi þegar kemur að málefnum barna er líka víða pottur brotinn. Við þurfum að taka mjög hressilega til í okkar ranni til að útrýma t.d. fátækt hjá börnum.

Ég nefndi í ræðu í morgun að tölurnar tala sínu máli. Í skýrslu UNICEF sem var birt í febrúar síðastliðnum kemur í ljós að hér á landi búa um og yfir 6.000 börn sem líða efnislegan skort. Þar af eru 1.600 sem líða verulegan skort. Það er of mikið. Ég vona að þessi stefna fái umfjöllun og verði samþykkt, þótt ég geri mér fyllilega grein fyrir, eins og kom fram í máli hv. þingmanna, að nú standa öll spjót á hæstv. félagsmálaráðherra. Sem mér finnst ósanngjarnt, en það er nú annað mál. Ég vona svo sannarlega að þetta fái brautargengi því að þetta er án nokkurs vafa eitthvert hið mikilvægasta málefni sem við ræðum á þingi. Við ræðum hér um efnahagsmál, sem eru náttúrlega mjög mikilvæg, og þar fram eftir götunum, en við gerum allt of lítið af því að ræða um málefni barna og hvernig við eigum að bæta lagaumgjörðina og lagasmíð þannig að það komi börnum best.

Í tillögunni stendur, með leyfi forseta, að „meginmarkmið fjölskyldustefnu verði að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, barnasáttmálinn, sé innleiddur í alla lagaumgjörð og framkvæmd.“ Það er frábært markmið. Við eigum að gera það. Börn og ungmenni eiga alltaf að vera það fyrsta sem við ræðum um þegar við setjum lög. Hvernig kemur það við börn og hvernig kemur það sér sem best fyrir börn.

Eins og ég segi, það er margt í þessu, ég er ekki búinn að lesa tillöguna alla nema á hraðri yfirferð. Mér sýnist þetta allt bara vera sjálfsagt mál, og mjög góð stefna sem við ættum að geta sameinast um að koma í framkvæmd eftir vinnu í velferðarnefnd. Ég vona svo sannarlega, ég veit ekki hvort hún verður samþykkt á þessu stutta þingi hér í haust, að hún verði allavega kláruð á næsta þingi og samþykkt héðan frá Alþingi. Því að þrátt fyrir að ég vilji ekki á neinn halla í samfélaginu eru börnin það mikilvægasta sem við eigum. Það eru þau sem taka við búinu af okkur. Við eigum að gera alla lagaumgjörð og allt umhverfi og aðstæður þeirra þannig að þau geti tekið við góðu búi og séu tilbúin að takast á við að lifa í mannlegu samfélagi þar sem réttindi og mannréttindi eru höfð að leiðarljósi.