145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

frumvarp um breytingu á ellilífeyri.

[15:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt áherslu á það á undanförnum dögum að vinnubrögð í ríkisstjórninni megi ekki vera eins og á leikskóla. Ég spyr ráðherrann þess vegna um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar þegar kemur að ellilífeyri hér í landinu, hvort ríkisstjórnin standi þar ekki sjálf með eigin tillögum eða hvort ekkert eigi að gera með það nefndarstarf sem verið hefur í gangi allt þetta kjörtímabil, hvort ágreiningur á milli stjórnarflokkanna komi í veg fyrir að hægt verði að einfalda og hækka ellilífeyri hér í landinu með því að setja inn í þingið það frumvarp sem þegar liggur fyrir um einföldun og hækkun á ellilífeyri.

Er það Sjálfstæðisflokkurinn eða formaður Sjálfstæðisflokksins sem stendur í veginum fyrir því að það frumvarp skili sér inn í þingið og sé hægt að vinna eða hvar er þetta mikilvæga mál statt? Var endurskoðun á almannatryggingakerfinu sett í nefnd á þessu kjörtímabili bara til að drepa málið í nefndinni eða á ekkert að gera með tillögurnar sem liggja fyrir í nefndinni? Ég veit ekki betur en að í sumar hafi starfshópur með fulltrúa fjármálaráðherra sjálfs skrifað frumvarp til laga til þess að einfalda og hækka eftirlaun í landinu og ég hélt að það væri vilji til þess hjá öllum flokkum í þinginu að slíkt mætti takast og að tillögurnar nytu stuðnings Landssambands eldri borgara. Svo þegar nú á haustinu hæstv. félagsmálaráðherra fer að tala um þessi málefni er sagt að hann fylgi ekki stefnunni eða sé einhvern veginn ekki á línunni og að ráðherra sem hagi sér þannig geti ekki vænst þess að mál hans fái afgreiðslu í þinginu.

Ég spyr þess vegna Bjarna Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra: (Forseti hringir.) Á ekki að afgreiða á haustþinginu tillögur starfshóps sem hans eigin ríkisstjórn hefur skipað(Forseti hringir.) um hækkun og einföldun á ellilífeyri sem er full samstaða um í nefndinni, m.a. af fulltrúum fjármálaráðherra ef ég veit rétt?