145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

frumvarp um breytingu á ellilífeyri.

[15:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi leikskólasamlíkinguna, þá held ég að hún hafi verið svolítið misheppnuð hjá mér vegna þess að kannski mátti misskilja það að ég teldi að þar gætu menn, á leikskólunum, fengið sitt fram með því að berja í borðið en það er auðvitað ekki þannig eins og sumir leikskólakennarar hafa bent mér á [Hlátur í þingsal.] og ég skil vel, eigandi barn á leikskóla.

Um málefni eldri borgara og öryrkja sem hafa verið í skoðun, þ.e. lögin um almannatryggingar, allt þetta kjörtímabil vil ég segja þetta: Við höfum á þessu kjörtímabili lagt mikla áherslu á úrbætur fyrir þá hópa sem þar eiga undir. Það gerðum við strax á fyrstu dögum þessarar ríkisstjórnar með því að afnema þær skerðingar sem þeir hópar þurftu að sæta á síðasta kjörtímabili. Maður spyr sig hverju það skilaði í sjálfu sér í ríkisfjármálalegu samhengi að fara inn í þær skerðingar hjá þeim hópum í þessu landi sem minnst hafa á milli handanna og fæst tækifærin til að bjarga sér. Hverju hefði það bætt við 390 milljarða fjárlagahallann sem vinstri stjórnin skilaði á sínum fjórum árum (Gripið fram í.) að sleppa skerðingunum á almannatryggingakerfinu? (Gripið fram í.) Við unnum þannig úr því máli að við drógum skerðingarnar til baka og höfum síðan verið að hækka bæturnar. Samhliða þessum breytingum sem við höfum beitt okkur fyrir og hafa skilað því að í dag fara rétt um 28 milljarðar í almannatryggingakerfið umfram það sem áður átti við þegar við tókum við, hefur verið unnið að þessu frumvarpi sem hv. þingmaður vísaði til. Það hefur legið frammi á vef velferðarráðuneytisins síðustu mánuði og ég bíð þess að ráðherra málaflokksins tefli því máli fram í ríkisstjórn. Að öðru leyti get ég að sjálfsögðu ekki svarað fyrir (Forseti hringir.) aðra ráðherra hér, hvað þeir hyggjast gera með sín mál.