145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

framlög til lífeyrisgreiðslna í fjármálaáætlun.

[15:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á þessari ræðu þegar því er haldið fram að ég hafi sagt að hafi ekki verið svigrúm til þess að gera betur. Það hefur einmitt verið svigrúm sem við höfum skapað til þess að gera betur. Þess vegna erum við í dag að setja rétt um 28 milljörðum meira í almannatryggingakerfið en átti við þegar við tókum við. Um það bil 5 milljarðar af þessum 28 eru vegna fjölgunar nýrra bótaþega. Stærsti hlutinn er vegna þess að við höfum hækkað bæturnar. Mér er efs að hægt sé að finna annað jafn langt tímabil eins og það sem við ræðum hér, þetta kjörtímabil, þar sem kaupmáttur bóta hefur vaxið jafn ört. Bætur hækka eins og verðlag eða laun, hvort sem hækkar meira. Fylgi bætur verðlagi þá er engin kaupmáttaraukning. Fylgi bætur launum þegar verðbólga er jafn lág og nú hefur átt við verður mikil kaupmáttaraukning. Hún hefur orðið slík að undanförnu að ég held það verði erfitt að finna annað eins kaupmáttartímabil bóta og það sem nú er nýliðið.

Það breytir því ekki sem við hv. þingmaður (Forseti hringir.) erum sammála um að við þurfum að halda áfram að gera betur. Það eru góðu tíðindin í ríkisfjármálaáætluninni, við erum (Forseti hringir.)að fá alvöruviðspyrnu til þess að setja meira í og gera betur. Og vegna annarrar fyrirspurnar sem hér hefur komið fram þá tel ég (Forseti hringir.) að það eigi að gera á grundvelli endurbættra laga um almannatryggingar.