145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

vinna ráðuneyta eftir fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.

[15:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þetta er mjög fín umræða og við tókum hana að hluta til þegar við samþykktum lögin um opinber fjármál. Mín skoðun er þessi. Ríkisfjármálaáætlunin lýsir breiðu línunum. Tökum bara dæmi. Setjum sem svo að það komi nýtt útgjaldatilefni upp á, segjum 700 milljónir, þess vegna 800 milljónir, eitthvað sem þarf að gera og menn eru almennt sammála um hér, en ekki var gert ráð fyrir í langtímaáætlunum. Hvernig á að bregðast við? Þá erum við að tala um mál sem væri upp á 0,1% af tekjunum og svarið er ósköp einfalt: Það er fullt svigrúm fyrir þetta 800 milljóna mál þrátt fyrir að langtímaáætlunin hafi verið sett saman án þess að menn hefðu það í huga. Það væri meira að segja svigrúm fyrir 2 milljarða mál eða allt að 7 milljarða mál, þá væru menn bara að ráðstafa 1% af tekjunum. Svo lengi sem menn halda sig innan fjármálastefnunnar sem hefur verið mörkuð um það hver heildarafgangurinn eigi að vera, hvernig skuldaþróunin (Forseti hringir.) er að breytast o.s.frv., þá væri svigrúm fyrir það. Eins og allir vita er tekjuáætlunin uppfærð oftar en einu sinni á ári og menn hafa svigrúm til að bregðast við (Forseti hringir.) svo lengi sem ekki er farið út frá stefnunni eða gerðar grundvallarbreytingar á málefnasviðunum. En ég (Forseti hringir.) er þeirrar skoðunar að fjárlagafrumvarp verði ekki sett saman nema með leiðsögn í áætluninni eins og hún var samþykkt af þinginu.