145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

málefni lánsveðshóps.

[15:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er allt rétt sem hv. þingmaður segir. Það voru margir sem sátu eftir með mjög erfiða stöðu vegna lánsveða. Sá hópur sem þar átti í hlut naut þess ekki á grundvelli lagalegrar stöðu eða niðurstöðu dómstóla með einhverjum hætti að hægt væri að vinda ofan af því með svipuðum hætti og átti við í ólögmætum lánum eða lánum sem dæmd voru ógild.

Það er vísað til þess að það hafi verið kominn grunnur að samkomulagi við lífeyrissjóðina. Við mátum það þannig á þeim tíma að sá grunnur væri í raun og veru allur á kostnað ríkisins. Framlag lífeyrissjóðanna væri afskaplega takmarkað í samanburði við þann í raun óútfyllta tékka sem ríkið var að taka á sig samkvæmt því samkomulagi. Þetta var á árinu 2013, eins og vísað var til, og þá voru liðin fjögur ár af því kjörtímabili og málið var ekki komið í endanlegan búning eins og það kom til okkar.

Við höfum, það er alveg rétt, forgangsraðað í þágu annarra hópa. Við höfum lagt mesta áherslu á að taka fyrst á skuldavanda yfirskuldsettra heimila, síðan var farið í stóra húsnæðispakkann sem endaði hérna í lögum um almennar félagsíbúðir, húsnæðisbætur og önnur mál sem afgreidd voru á vorþinginu eða fyrr í sumar. Síðan höfum við núna verið að beina sjónum okkar að þeim sem vilja komast aftur inn á fasteignamarkaðinn. Ég hef ekki verið með til sérstakrar skoðunar hver staðan er í dag hjá þeim sem falla í hóp þeirra sem hér eru nefndir lánsveðshópurinn.