145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

félagasamtök til almannaheilla.

779. mál
[15:37]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um félagasamtök til almannaheilla sem eru á þingskjali 1323, mál 779.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um félagasamtök til almannaheilla. Lagt er til að félagasamtök til almannaheilla verði aðgreind frá öðrum félagasamtökum, að settar verði reglur um stofnun félagasamtaka til almannaheilla og að meginefni samþykkta þeirra ákveði um félagsaðild, ákvörðunartöku og stjórnun slíkra félaga.

Þetta frumvarp á sér þó nokkra forsögu og er stofnað til þess á sínum tíma að frumkvæði almannaheillageirans sjálfs. Vinna við frumvarpsgerðina á rætur að rekja til þess frumkvæðis svo og undirbúningsstarfs á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Sá hópur sem þar hóf þetta verk skilaði af sér skýrslu til þáverandi ráðherra í nóvember 2010. Því starfi var svo haldið áfram í þáverandi efnahags- og viðskiptaráðuneyti og síðar í atvinnuvega- og nýskipunarráðuneytinu og skipaði þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra nefnd sem falið var að undirbúa löggjöf um frjáls félagasamtök til almannaheilla.

Í nefndinni áttu sæti Ragna Árnadóttir, þáverandi formaður Almannaheilla, skipuð án tilnefningar, Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómari, tilnefndur af Fræðasetri þriðja geirans, og Ingibjörg Helga Helgadóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur fram að með frjálsum félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum sem starfa að almannaheillum sé átt við frjáls félagasamtök sem hafa það að markmiði að vinna að heill ótiltekins fjölda manna án hagnaðarsjónarmiða þeirra sem reka og stýra félagi. Þá sé einnig átt við sjálfseignarstofnanir sem hafa sams konar markmið og uppfylla skilyrði laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.

Nefndinni var einkum ætlað að fjalla um hvaða skilyrði slík félög þurfa að uppfylla til að geta notið réttinda og borið skyldur samkvæmt lögunum. Nefndinni var sérstaklega falið að fjalla um skattumhverfi almannaheillasamtaka, m.a. að því hvað varðar niðurfellingu skatts af aðföngum, sérreglum um erfðafjárskatt og skatt af gjafafé. Þá var nefndinni einnig ætlað að huga að löggjöf um almannaheillasamtök í nágrannaríkjum Íslands svo sem efni stæðu til. Er frumvarpið eins og fyrr segir byggt á vinnu þessarar nefndar.

Starfsemi frjálsra félagasamtaka, þ.e. hins svokallaða þriðja geira, er mikilvæg og þá ekki síst starfsemi þeirra frjálsu félagasamtaka sem talist geta til almannaheillasamtaka. Með því að skilgreina slík samtök sérstaklega í lögum og setja heildarlöggjöf um þau verður skotið traustari stoðum undir starfsemi þeirra. Þetta eru fjölbreytt félög og í fjölbreyttri starfsemi, lítil og stór, og því er þetta verkefni víðtækt og hefur tekið talsverðan tíma að koma þessu hingað í þetta form.

Reglur um bókhald, ársreikninga og endurskoðun eða yfirferð ársreikninga geta haft sérstakt gildi í tengslum við samningsgerð hins opinbera við samtökin. Unnt væri að setja sérstök skilyrði varðandi slíka samningsgerð án sérstakrar löggjafar en löggjöf þykir þó traustari og getur auðveldað þátttakendum í samtökunum er byggjast á grunni sjálfboðaliðastarfs að skilja grundvallarreglur um starfsemina og reka hana betur en ella. Fordæmi eru fyrir setningu slíkra ítarlegra reglna, t.d. í lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Þá eru auk þess til heildarlög m.a. um hlutafélög og einkahlutafélög.

Með setningu allítarlegra reglna um almannaheillasamtök er stefnt að því markmiði að þátttakendum eða aðilum að samtökunum séu ljósar allar helstu reglur sem um starfsemina gilda, ekki aðeins skilgreiningar og reglur um fjármál heldur einnig aðrar reglur félagaréttar. Slíkt getur auðveldað starfsemi almannaheillasamtaka og stuðlað að því m.a. að samtökin nái betri árangri og geta þessi mikilvægu samtök orðið traustari en ella fyrir bragðið.

Ekki þótti ástæða til að ganga svo langt að semja sérstakt frumvarp um frjáls félög eða félagasamtök almennt. Heildarlöggjöf um almannaheillasamtök er ætlað að koma til viðbótar við nokkur ákvæði sem gilda um slík samtök og má m.a. finna í firmalögum, lögum um fyrirtækjaskrá og fleiri lögum, svo sem skattalögum. Á Norðurlöndunum hefur löggjöf um frjáls félög og félagasamtök aðeins verið sett í Finnlandi og er með frumvarpinu ekki stefnt að því að setja reglur um öll frjáls félög heldur einungis hin skilgreindu almannaheillasamtök. Skráning almannaheillasamtaka er skilyrði fyrir því að löggjafinn geti viðurkennt sérstakar skattaívilnanir þeim til handa.

Frumvarpinu er ætlað að gilda um félög sem samkvæmt samþykktum sínum eru stofnuð eða starfrækt samkvæmt samþykktum sínum til eflingar ákveðnum skýrt afmörkuðum málefnum til almannaheilla en er ekki komið á fót í ágóðaskyni fyrir félagsmenn. Hér er átt við svonefnd hugsjónafélög sem stofnuð eru til mannræktar eða styrktar á einhverju sviði og beinast að ákveðnum einstaklingum sem uppfylla ákveðin skilyrði eða málefni sem nánar er skilgreint í samþykktum félagsins. Málefnið verður að vera talið til einhverra þjóðþrifa, svo sem íþrótta- og mannræktarfélög, styrktarfélög, sjúklinga, björgunar- og hjálparfélög, neytendafélög og menningarfélög. Þannig yrði þetta félagaform valið ef þátttaka margra er æskileg. Önnur félagaform geta verið æskilegri séu fjármunir þegar fyrir hendi og til stendur að stýra þeim til hagsbóta fyrir ákveðið málefni, samanber sjóðir og stofnanir samkvæmt staðfestri skipulagsskrá í samræmi við lög nr. 19/1988 og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur eftir lögum nr. 33/1999.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um stofnun og efni samþykkta almannaheillafélaga sem og um félagsaðild. Sérstök ákvæði eru um þátttakendur í félagi, skráningu félagsaðildar svo og inngöngu, úrsögn og brottvísun úr félagi. Fjallað er um ákvörðunarþátttöku og eru sérstök ákvæði um heimild til ákvörðunartöku, ákvörðunarrétt þátttakenda og kjörinna fulltrúa, atkvæðagreiðslu félagasambanda, fundi, fulltrúaráðsfundi eða aðferðir til ákvarðanatöku. Þá eru sérstök ákvæði um hvaða ákvarðanir skuli taka á aðalfundi, aðalfundarboð, atkvæðisrétt þátttakenda, hæfi á aðalfundi, ákvarðanir félags, kosningar, fundargerð, ógildanlegar og ógildar ákvarðanir og framkvæmdabann.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um stjórnun félags og sérstök ákvæði eru um stjórn félags, ritun firma og vanhæfi. Ákvæði frumvarpsins um ársreikninga og endurskoðun eða yfirferð þeirra gerir ráð fyrir að um ársreikninga félaganna gildi ákvæði laga um bókhald og ef kveðið sé á um það í samþykktum skuli velja endurskoðanda, skoðunarmann eða félagskjörinn skoðunarmann, til að endurskoða eða yfirfara ársreikning félagsins á aðalfundi eða fulltrúaráðsfundi.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um slit félags, slit félags með dómi, skráningu í almannaheillafélagsskrá sem lagt er til að fyrirtækjaskrá haldi, heimild til að breyta skráningu félagasamtaka sem þegar hafa verið skráð hjá fyrirtækjaskrá í félagasamtök til almannaheilla og viðurlög.

Frumvarpsdrögin voru kynnt Almannaheillum og aðildarfélögum þess sem og Fræðasetri þriðja geirans, velferðarráðuneytinu og fyrirtækjaskrá RSK. Nefndin fékk einnig á sinn fund fulltrúa Ríkisendurskoðunar og ríkisskattstjóra. Þá voru frumvarpsdrögin einnig sett á vef ráðuneytisins, atvinnuvega- og nýsköpunaráðuneytisins, til kynningar og óskað eftir athugasemdum. Umsagnir bárust frá sex aðilum. Gerðar voru breytingar á frumvarpsdrögunum þar sem tekið var tillit til ýmissa athugasemda sem bárust ráðuneytinu.

Upphaflega lagði nefndin upp með að opinberir aðilar gerðu að skilyrði fyrir veitingu styrkja rekstrarsamninga og opinberra leyfa til almannaheillafélaga að þau uppfylltu skilyrði laganna. Vegna athugasemda sem nefndinni bárust, m.a. frá velferðarráðuneyti, um að frumvarpið væri íþyngjandi fyrir minni félagasamtök, var fallið frá þeirri hugmynd og lagði nefndin til að opinberir aðilar gætu gert að skilyrði fyrir veitingu styrkja, rekstrarsamninga og opinberra leyfa til félagasamtaka að þau uppfylltu skilyrði laganna. Í umsagnarferli ráðuneytisins komu fram athugasemdir um að frumvarpið væri of íþyngjandi fyrir minni félagasamtök og að hætt yrði við að opinberir aðilar gerðu það almennt að skilyrði fyrir veitingu styrkja að félagasamtök uppfylltu skilyrði laganna.

Frumvarpið hefur verið lengi í undirbúningi og hefur verið vandað vel til verka og reynt að gæta þess að hafa sem víðtækast samráð við hagaðila. Ég minni á að frumvarpið á rætur sínar að rekja til frumkvæðis þessara aðila og þessara samtaka og höfum við því unnið náið með þeim til að ná fram sem víðtækastri sátt um efni frumvarpsins. Er ljóst eftir allt það umsagnarferli að um ákveðin atriði í frumvarpinu eru skiptar skoðanir þó svo að það sé alveg ljóst að bæði samtökin sjálf, Almannaheill, og yfirgnæfandi meiri hluti þeirra aðildarfélaga eru mjög hlynntir frumvarpinu og framlagningu þess. Ég tel mikilvægt að svo komnu máli að Alþingi fái þetta mál til umfjöllunar, kalli eftir þessum ólíku sjónarmiðum og fari vel yfir það í nefndinni sem ég hvet til þess að skoða þetta mál vel og að lokum taka til þess afstöðu hvort gera þurfi á því einhverjar breytingar.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að tekjur og gjöld ríkissjóðs muni aukast um 3–20 millj. kr. Ekki hefur verið gert ráð fyrir því í útgjaldaramma gildandi fjárlaga. En það þarf að finna þeim útgjöldum stað í ramma þess málaflokks sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sett fram í fimm ára fjármálaáætlun sem og í fjárlögum. Áhrifin á afkomu ríkissjóðs verða hins vegar óbreytt eftir sem áður.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.