145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

félagasamtök til almannaheilla.

779. mál
[16:03]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla í þessari stuttu ræðu minni að fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið fram. Þetta tel ég að varði miklu meira en menn vilja vera láta. Það er ýmis atvinnurekstur í landinu sem er á vegum almannaheillafélaga, t.d. allmargar sjúkrastofnanir. Ég tel t.d. að sú gagnmerka stofnun, sem er komin nokkuð til ára sinna, elli- og hjúkrunarheimilið Grund starfi á þeim grundvelli og sömuleiðis SÁÁ, Samtök áhugamanna um áfengisvandamál, sem reka sjúkrastöð sem heitir Vogur. Og það eru ýmis önnur félög sem hafa atvinnustarfsemi í hendi. Ef einhver ótti er um að hér sé verið að binda hendur trúfélaga, stofnun trúfélaga, þá er kannski ekki um það að ræða heldur má fremur segja að verið sé að skapa alla vega einhverjar lágmarks umgengnisreglur í slíkum félagasamtökum. Það er ekki kúgun við einn eða neinn. Ég hef á undanförnum árum komið aðeins nálægt samtökunum Almannaheillum. Það hefur verið samtökunum mikið kappsmál að fá þennan lagagrundvöll. Að sumu leyti vísar þetta til þess almenna ramma sem hlutafélögin eru. Því segi ég í þessari stuttu ræðu: Ég þakka hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir að málið skuli vera komið hingað inn sem fer væntanlega til nefndar og umsagnar að því leyti til sem það hefur ekki nú þegar farið til umsagnar hjá ýmsum hagsaðilum. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að sinni, virðulegi forseti.