145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

hlutafélög o.fl.

664. mál
[16:19]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er kunnugt um það áhugamál hv. þingmanns, þ.e. áhugi á hlutafélagalögum eins og hann greindi frá. Það vill nú svo til að ég og hv. þingmaður höfum átt nokkur samtöl um þetta áhugamál þingmannsins. Þess vegna kemur mér ekki á óvart að hér fari þingmaður þess á leit og spyrji hvort ráðherranum sé það þóknanlegt að nefndin taki þetta mál upp í tengslum við það að verið er að gera breytingar á þessum sömu lögum, þ.e. það mál sem hv. þingmaður lagði fram í haust og við höfum rætt og hann hefur kynnt fyrir mér. Því er auðvelt að svara: Ég geri akkúrat engar athugasemdir við það og hvet nefndina til að taka það mál til skoðunar í meðförum nefndarinnar á þessu máli. Ég geri heldur ekki athugasemdir við það ef nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að leggja fram breytingartillögu við þetta mál.