145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

aðgerðaáætlun um orkuskipti.

802. mál
[16:41]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi spurninguna um hversu hátt hlutfall hreinorkubílar eru af bifreiðaflota landsmanna, það er rétt rúmlega sú tala sem hv. þingmaður nefndi, talið er að hlutfallið sé um 1,5%. Við sjáum að það er mikið verk að vinna. Ég veit ekki hversu oft ég er spurð að því t.d. á erlendum vettvangi: Þið með alla ykkar raforku, af hverju keyra ekki allir um á rafbílum á Íslandi? Það er einmitt þessi hvati sem hv. þingmaður nefnir og ef maður horfir á þetta í stóra samhenginu — og ég hef hlustað á Sigurð Inga Friðleifsson hjá Orkusetrinu á Akureyri halda marga innblásna fyrirlestra um þetta — þá spyr maður sömu spurningar: Af hverju ekki? Við getum gert þetta í dag, við höfum orkuna og sjáum allan sparnaðinn sem yrði fyrir þjóðarbúið. Það eru þessi skipti, þetta millibil sem þarf að komast yfir. Tæknin er að verða miklu betri. Við sjáum það bara á rafbílum.

Mér þykir fyrirsjáanleikinn mjög mikilvægur í öllu þessu þannig að það verði líka hvati fyrir þá sem flytja inn ökutæki, að þeir viti af honum. Ívilnanirnar hafa verið settar til þess að venjuleg fjölskylda hafi raunverulegt val, því að jafnvel þótt rekstrarkostnaður rafbíla sé miklu minni þá er það hóll að fara yfir að kaupa miklu dýrari bíl. Á endanum kjósum við með fótunum ef svo mætti segja í þessum málum, við kaupum það sem við höfum efni á. Þannig hefur þessi hvati verið réttlættur. Sumir eru alfarið á móti því og vilja láta markaðinn ráða. En munurinn á verði er enn til staðar. Þess vegna er ég algjörlega hlynnt því að við þurfum að hvetja, en það þarf að vera fyrirsjáanleiki þannig (Forseti hringir.) að hvorum megin hryggjar sem menn lenda í þessu þá viti þeir að hverju þeir ganga.