145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

aðgerðaáætlun um orkuskipti.

802. mál
[16:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta með hæstv. ráðherra. Það er gott að núna er verið að setja, mig minnir að það sé 301 milljón, svolítið skondin upphæð, í uppbyggingu á hleðslustöðvum fyrir rafbíla. (Iðnrh.: 67.) Það var alla vega verið að setja einhverja peninga í það sem er mjög gott mál af því að maður kaupir ekki rafbíl ef innviðirnir eru ekki til staðar til þess að hlaða hann og þar fram eftir götunum. Þannig að ég held að þetta sé allt á réttri leið. Við erum kannski svolítið eftir á, en ég hef trú á því að nú séu hjólin farin að rúlla hvað þetta varðar.

Ég hefði viljað sjá ríkisstofnanir og kannski ríkisstjórnir ganga á undan með góðu fordæmi. Ég sendi fyrirspurn á umhverfisráðherra um stefnu ríkisins varðandi umhverfisvænar bifreiðar, líka ráðherrabifreiðar. Hér hafa verið keyptir ráðherrabílar á undanförnum árum sem hefðu hæglega getað verið vistvænni en þeir eru. Í dag fást eiginlega allar gerðir af bílum sem rafbílar, tvinnbílar eða metan, þannig að það er ekki afsökun. Ég hefði viljað sjá stofnanir ríkisins ganga fram með góðu fordæmi. Þær geta leyft sér að hugsa um sparnaðinn sem kemur til baka í eldsneytiskostnaði. Mér fannst svarið hálfloðið. Þær bifreiðar sem ég veit að hafa verið keyptar undanfarið eru bara Land Cruiser-jeppar og eitthvað þar fram eftir götunum. Ég viðurkenni að ég er ekki búin að lesa tillöguna spjaldanna á milli, en kannski er í þessari áætlun einmitt einhver stefna sett fyrir ríkisstofnanir því að ríkið kaupir töluvert af bifreiðum, tala nú ekki um þegar sveitarfélögin koma kannski þarna inn. Ríkið sjálft getur haft áhrif á það hversu hratt þetta gengur.