145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

aðgerðaáætlun um orkuskipti.

802. mál
[16:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og ég fór stuttlega inn á áðan styð ég þetta mál heils hugar og fagna því að það sé komið fram, enda mjög mikilvægt. Í raun og veru er það eina sem mætti gagnrýna við það í sjálfu sér að ekki sé gengið lengra, en auðvitað er pólitíkin þannig að hlutirnir gerast ekki alltaf á þeim hraða sem maður mundi óska og jafnvel ekki á þeim hraða sem þarf.

Mig langar aðeins að nefna til sögunnar árið 1987. Á þeim tíma höfðu menn miklar áhyggjur, og réttilega, af því að ósonlagið var að þynnast og það væri gat á ósonlaginu eða á suðurskauti plánetunnar. Við því var brugðist af alþjóðasamfélaginu með því að banna ákveðin efni. Ég nefni þetta vegna þess að þegar við ætlum að eiga við miklar hugsanlegar náttúruhamfarir eða fyrirsjáanlegar náttúruhamfarir þá er tilhneiging meðal sumra til þess að ætla að reyna að leysa hlutina á einhverjum markaðsforsendum. Ég nefni þetta til þess að benda á að stundum er það ekki hægt. Stundum þarf einfaldlega ríkisinngrip til að leysa svona vandamál, stundum þarf hreinlega að banna eitthvað til þess að ná því markmiði að komast hjá því að klúðra plánetunni okkar og veru mannkynsins á henni.

Það er samt eitt sem er mikilvægt að við höfum í huga þegar kemur að banni á efnum sem voru talin og eru helst talin bera ábyrgð á vandamálinu með ósonlagið. Þarna voru efni sem voru ekki það mikilvæg í samfélaginu að ekki tækist samstaða um að banna þau. Það eru önnur efni sem hægt er að nota til sömu og sambærilegra hluta. Það var mikil samstaða um þetta og þess vegna tókst það. Núna er ósonlagið að jafna sig og mun að mati sumra vísindamanna ná að jafna sig um miðja öldina eða svo, sem er vissulega mikið gleðiefni. Við sluppum þarna. Við gerðum það með ríkisafskiptum, með hreinu banni, en það var undir þeim kringumstæðum að við höfðum val, við gátum notað önnur efni til þess að ná þeim markmiðum sem við náðum með efnunum áður en þau voru bönnuð.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir núna er miklu, miklu, miklu dýpri og miklu, miklu, miklu alvarlegri. Hann er sá að við notum sífellt meiri orku. Orka sem eðlisfræðilegt fyrirbæri er úti um allt. Sumir segja að allt sé gert úr orku. Það er svo sem hægt að færa rök fyrir því. En það hvernig við nýtum þessa orku hefur mjög alvarleg áhrif á það hvernig loftslagið á þessari plánetu virkar. Að mínu viti og eftir því sem ég fæ best séð af því efni sem ég hef lesið erum við þegar komin á þann stað að við munum þurfa að takast á við mjög miklar loftslagsbreytingar og að mínu mati er kominn tími til þess að við förum að búa til viðbragðsáætlanir frekar en að forðast vandann endalaust. Ég held ekki að við getum forðast vandann lengur. Mér skilst að jafnvel ef við mundum hætta að nota olíu alfarið í dag, á einum degi, þá mundum við ekki losna við vandann. Loftslagsbreytingarnar munu verða. Ástæðan er sú að ef það er eitt sem einkennir tækniframþróun mannkyns er það orkunotkun. Alltaf þegar við finnum upp nýja leið til þess að nota orku notum við hana alveg villt og galið til að gera alla þá glæsilegu hluti sem mannkynið er fært um.

Núna er mikil áhersla lögð á að spara orku, vera t.d. með farsíma sem nota minni orku, sem er náttúrlega kaldhæðnislegt með hliðsjón af þróuninni. Það er góðra gjalda vert og alveg ágætt markmið, en ég hygg þó að það muni aldrei leysa þennan vanda vegna þess að við sitjum uppi með hann. Jafnvel ef við hættum að nota orku í einn dag, jafnvel ef við slökkvum öll ljósin hér, slökkvum á útvarpinu, ef áheyrendur hætta að hlusta og við förum aftur til tíma án orkunýtingar þá munum við ekki sleppa við vandann. Það mun ekki bjarga okkur. Hvað mun bjarga okkur? Til lengri tíma munu áætlanir eins og þessar vonandi draga úr hörmungunum sem sjálfsagt munu dynja hér og þar á jörðinni.

Annað sem við þurfum að gera er að við þurfum að einbeita okkur að tækniframförum sem geta hjálpað okkur til að komast til móts við vandann, tækniframförum til að reyna að draga úr vandanum og tækniframförum til að búa til leiðir sem leysa af hólmi það sem annars gerir okkur svo fíkin í olíu og kol og sambærilegar leiðir til að búa til orku. Það er langtímamarkmið en ég hygg að til að ná því muni líka þurfa ríkisaðstoð. Ég held ekki að það vandamál muni leysast alfarið af markaðsástæðum eða af markaðsöflunum sjálfum.

Þó ber að geta þess að þetta verður alltaf blanda, vegna þess að ekkert ríki getur einfaldlega sagt fólki hvernig það á að haga sér. Ekkert ríki getur ákveðið nú skuli mannkyn haga sér svona eða hinsegin, mannkynið virkar einfaldlega ekki þannig og sem betur fer, mætti jafnvel færa rök fyrir, sterk rök fyrir. Ég mundi gera það. En við verðum að gera eitthvað, við verðum að taka okkur saman og við verðum að sameinast um að beita þeim ráðum sem við getum til að laða fram það góða í tækniframförum og laða fram það góða í þeirri fjölbreytni, nýjungagirni sem einkennir okkar ágætu dýrategund með það að markmiði að komast fyrir þetta vandamál og í það minnsta gera hörmungarnar sem það leiðir af sér sem allra, allra minnstar og auka sem mest líkurnar á því að komast í gegnum þetta með einhvern lærdóm að baki, einhvern lærdóm um það hvernig við eigum að takast við svona vandamál.

Þegar ég segi tæknivandamál segi ég það í afskaplega víðum skilningi. Það er góðra gjalda vert að ætla að búa til rafhlöður sem endast lengur og eru betri og léttari og ódýrari og allt það. Það er reyndar einn af mikilvægustu þáttunum ef út í það er farið, hreinlega til þess að geta nýtt hluti eins og vatnsaflsvirkjanir meira heldur en olíu. Vandinn við olíu er hvað hún er gagnleg. Sama á við um persónuupplýsingar, vandinn er hvað þetta eru gagnleg fyrirbæri, hversu mikið er hægt að nota þau. Það er þess vegna sem við erum svo fíkin í þau.

Enn fremur hygg ég að þegar fram líða stundir munum við þurfa að leggja meiri áherslu á tækniframfarir á borð við það hreinlega að breyta og stjórna umhverfinu. Það held ég ekki að gerist á þessu ári eða þessu kjörtímabili eða því næsta eða þar næsta, ég held að það sé áframhaldandi verkefni sem verði einungis leyst þegar það verður nógu mikill þrýstingur á það. Eins og með ósonlagið þá varð til þrýstingur. Hann virkaði vegna þess að aðstæður heimiluðu það. Núna er þrýstingur og hann fer vaxandi og hann mun vaxa enn frekar. Þá er mikilvægt að við séum reiðubúin til að bregðast við á allan þann hátt sem við mögulega getum. Þá getum við ekki stólað alfarið á leiðir eins og þá sem var farin 1987 þegar þessi efni voru einfaldlega bönnuð. Við getum ekki heldur stólað alfarið á hagkerfið eða efnahagslífið til þess einhvern veginn að svara þeim þrýstingi. Þetta verður alltaf blanda. Þetta verður alltaf hluti af einhvers konar heildstæðri hugarfarsbreytingu, eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan.

Við þurfum hugarfarsbreytingu sem miðar að því að við ætlum öll — öll sem dýrategund — að lifa af þessa krísu, þessa komandi krísu. En við gerum það einungis ef við virkilega ætlum okkur að gera það og þá getum við jafnvel þurft að ganga lengra en þykir þægilegt, ýmist fyrir þá sem hafa andstyggð á ríkisafskiptum eða þá sem hafa andstyggð á viðskiptum.

Ég ætlaði ekki að hafa þetta svona langa ræðu, virðulegi forseti, en þessi málaflokkur er þannig að það er ekki nógu mikið rætt um hann og það er ekki nógu mikið gert í honum. Þótt ég fagni þessari tillögu og muni styðja hana legg ég á það ríka áherslu að við verðum að ganga lengra og þetta mun kosta. Þetta mun kosta peninga, þetta mun kosta tíma. Þetta verkefni mun kosta okkur öll. Eina spurningin er hvernig við ætlum að forgangsraða þeim kostnaði þannig að við komumst sem best undan þeim vondu hlutum sem annars munu skella á.

Ég held ég láti þetta gott heita, virðulegi forseti og þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir tillöguna og ítreka enn og aftur að við þurfum að ganga lengra.