145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

aðgerðaáætlun um orkuskipti.

802. mál
[16:57]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er nú eiginlega ekki andsvar, virðulegi forseti, og ég biðst forláts á því, þetta er eiginlega það sem við höfum stundum kallað meðsvar vegna þess að ég vil taka heils hugar undir þá áherslu sem kom fram í máli þingmannsins hvað varðar tækniframfarir og nýsköpun. Í starfi mínu bæði sem orkumálaráðherra og nýsköpunarráðherra sé ég á hverjum einasta degi hvernig þetta fer svo ljómandi vel saman.

Ég varð þeirrar ánægju og reynslu aðnjótandi að sækja orkumálaráðherrafund kollega minna í Evrópu í Lúxemborg fyrir um réttu ári. Þar voru gestir á fundinum þeir Elon Musk, forstjóri Tesla, og Bertrand Piccard, sem er sá sem var að ljúka núna flugi með Solar Impulse, fyrstu sólarknúnu flugvélinni sem gerð hefur verið. Þeir komu og ræddu við mig og samráðherra mína evrópsku og fluttu alveg ótrúlega mögnuð skilaboð, einmitt líka varðandi það að hugsa stórt, hugsa út fyrir boxið. Minnisstæðasta setningin sem Bertrand Piccard sagði var að það hefði ekki verið kertagerðarmaðurinn sem fann upp ljósaperuna, við værum enn þá með kerti ef það væru þeir aðilar sem hefðu verið gerðir ábyrgir fyrir því. Það er svo rétt. Bara varðandi þessa flugvél þá gekk hann á milli manna út um allt til að reyna að fá flugvélagerðarmennina, aðilana, til þess að aðstoða hann við það. Enginn vildi gera það vegna þess að úrtöluraddir voru, ekki væri hægt að gera þetta fyrir svona stóra vél. Að lokum byrjaði hann bara frá grunni, henti kertinu og einbeitti sér að ljósaperunni. (Forseti hringir.) Hann sagði að það magn orku sem þyrfti til að drífa þessa flugvél, sólarselluflugvélina, væri sama og venjulegar flugvélar notuðu í afþíðingarkerfið. Það þarf að hugsa hlutina upp á nýtt.