145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

aðgerðaáætlun um orkuskipti.

802. mál
[17:01]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er sönn ánægja að fara betur yfir þetta með hv. þingmanni vegna þess að ég varð algjörlega uppnumin á umræddum fundi. Ég veit ekki í hversu mörgum ræðum ég hef nefnt þetta dæmi vegna þess að fyrir mér var þetta bara eins og að það kviknaði á ljósaperu. Þessir einstaklingar náðu þarna til allra þeirra sem starfa að þessum málum á vettvangi stjórnmálanna í Evrópu. Ég held að það sé akkúrat þannig sem þessi hugarfarsbreyting þarf að verða, við þurfum að heyra fleiri svona sögur. Og það er það sem ég var líka að vísa til áðan hvað ég er þakklát fyrir í starfi mínu að hafa verið með þessa tvo geira sameiginlega, bæði orkumálin og nýsköpunarmálin, vegna þess að maður sér á hverjum einasta degi að það eru einhverjir einstaklingar, aðilar, einhvers staðar þarna úti að vinna að málum sem munu breyta heiminum, koma þessum hlutum í betra lag.

Það er sannarlega þannig eins og hv. þingmaður nefndi að ótrúlega góðir hlutir eru að gerast úti um allt. Við eigum mikinn þátt í því, Íslendingar, og við erum alltaf að breiða út fagnaðarerindið í stóra samhenginu, til að mynda hvað jarðhitann okkar varðar, hversu miklir möguleikar eru, allur heimurinn sem er ekki eldfjallaeyja heldur bara með lághita, hvað við getum gert mikið gagn ef við drögum úr notkun jarðefnaeldsneytis. Gróðurhúsaáhrifin, áhrifin á loftslagsmál, ef við mundum í auknum mæli koma húshitun og loftkælingu, sem eru stórir mengunarvaldar úti um allan heim, inn í þann búning sem við höfum gert hér. Þar erum við að leggja okkar af mörkum, bæði í þróunarsamvinnu og (Forseti hringir.) í utanríkispólitík okkar. Það er alveg frábært að sjá viðtökurnar og hvernig (Forseti hringir.) við getum haft áhrif þar í stóra samhenginu.