145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

timbur og timburvara.

785. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Haraldur Einarsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um timbur og timburvörur, í fjarveru framsögumanns málsins.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið nokkra gesti á sinn fund og einnig bárust nokkra umsagnir.

Tilgangur frumvarpsins er að skapa nauðsynlega lagastoð svo að innleiða megi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 995/2010, um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað með reglugerð. Meginmarkmið reglugerðarinnar er að koma í veg fyrir viðskipti með timbur og timburvöru úr viði sem fenginn er með ólöglegu skógarhöggi. Með ólöglegu skógarhöggi er átt við skógarhögg í andstöðu við gildandi löggjöf á því svæði þar sem það fer fram.

Með frumvarpinu eru eftirlitsskyldur lagðar á rekstraraðila og opinbera eftirlitsaðila í þeim tilvikum þegar timbur eða timburvara kemur inn á markaðssvæði Evrópska efnahagssvæðisins í gegnum Ísland. Á nefndarfundi bentu fulltrúar Mannvirkjastofnunar, sem samkvæmt frumvarpinu hefur umsjón með framkvæmd reglnanna, á að fjórðungur alls innflutnings á timbri og timburvöru kæmi frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Því væri ekki um óverulegt magn að ræða, eins og segði í frumvarpinu. Nefndin tekur undir þau sjónarmið Mannvirkjastofnunar að auknum skyldum þurfi að fylgja aukið fjármagn og taka þurfi tillit til nýrra verkefna stofnunarinnar við ákvörðun um fjárheimildir hennar.

Í frumvarpinu er ekki skilgreint sérstaklega hvað átt er við með timbri og timburvöru heldur er um það vísað í viðeigandi skilgreiningu í fyrrgreindri reglugerð ESB. Á nefndarfundi kom til umræðu hvort betur færi að skilgreina hugtökin í lögunum. Nefndin bendir á að tilgangur frumvarpsins er að innleiða fyrrnefnda Evrópugerð og skilgreining á timbri og timburvörum getur tekið lítillegum breytingum í tímans rás þannig að það kann að verða óþarflega þungt í vöfum að breyta skilgreiningunni með lagabreytingu í hvert sinn. Þá bendir nefndin einnig á að gildissvið laganna er afmarkað með vísun til Evrópugerða. Nefndin gerir því ekki athugasemd við þetta atriði.

Að öðru leyti hafa ekki komið fram efnisleg rök gegn innihaldi frumvarpsins eða reglugerðarinnar sem því er ætlað að veita lagastoð. Að því virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Elín Hirst var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir þetta álit samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Aðrir hv. alþingismenn sem rita undir þetta nefndarálit eru Höskuldur Þórhallsson, formaður nefndarinnar, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, sá sem hér stendur, hv. þm. Birgir Ármannsson, hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, og hv. þm. Vilhjálmur Árnason.