145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Sífellt koma fram góðar fréttir af því hvernig kaupmáttur á Íslandi er að batna. Það kemur t.d. fram núna í dag að launavísitala hefur hækkað um 11,3% síðustu 12 mánuði og ætla má að kaupmáttur launatekna hafi hækkað um 10% á sama tíma. Næsta vísitölumæling kemur fram eftir tvo, þrjá daga. Sú síðasta hafði að geyma upplýsingar um lækkun upp á 0,3% og síðustu 12 mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,1% en 0,6% ef húsnæðisliðurinn er tekinn út úr eins og á að gera og gert er alls staðar.

Hins vegar er athyglisvert að innflutt vara virðist ekki hafa lækkað í samræmi við styrkingu krónu undanfarna 12 mánuði. Það má t.d. minna á að enskt sterlingspund hefur lækkað um tæpan fjórðung nú á nokkrum mánuðum, bandaríkja- og kanadadollarar hafa lækkað um 11–12% og svo mætti áfram telja.

Þetta hefur haft í för með sér eins og kom fram um daginn í Morgunblaðinu að innflutt matvara hefur lækkað um 2% sem er mjög merkilegt þegar við horfum á hvernig styrking krónunnar er. Hins vegar eru vænleg tíðindi sem komu fram í dag að fyrirtækið IKEA hefur nú í þriðja sinn á þremur árum lækkað verðskrá sína, í þetta skipti um 3,5%. Þeir eru sem sagt að taka séns á því eins og krakkarnir segja að krónan haldi áfram að vera stöðug næstu 12 mánuði eins og hún hefur verið (Forseti hringir.) og fleiri mættu á eftir fylgja.


Efnisorð er vísa í ræðuna