145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Í viðtali við forstjóra Isavia í gær kom fram að miðað við áætlað framboð á flugi til landsins og aðrar horfur megi vænti þess að hingað komi vel yfir 2 milljónir erlendra ferðamanna á næsta ári, sem sagt vel sexfaldur íbúafjöldi landsins. Áfram verður vöxtur mældur í tugum prósenta. Viðbótin ein á næsta ári gæti orðið 300.000–400.000 erlendir ferðamenn, svipaður fjöldi og kom hingað á heilu ári fyrir innan við tíu árum.

Ég held að ekki verði um það deilt að við erum á margan hátt skelfilega vanbúin til að takast á við þessa hröðu aukningu. Þar kemur margt til, innviðirnir, margir hverjir, og undirbúningur á fjölsóttum ferðamannastöðum heldur ekki í horfinu, hvað þá að hann sé tilbúinn að taka við þessu aukna álagi. Vegakerfið er að grotna niður, slysum erlendra ferðamanna stórfjölgar í umferðinni, það er engin samgönguáætlun í gildi og ónýtt plagg er að velkjast í þinginu í þeim efnum. Varðandi einfaldan hlut eins og hreinlætismálin eru þau í hreinum ólestri og menn hafa ekki einu sinni getað gripið til þess ráðs, sem augljóslega er það skjótvirkasta, að fela Vegagerðinni að sjá um brýnustu úrbætur í þeim efnum eins og við höfum lagt til, þingflokkur Vinstri grænna.

Hér er stórt verkefni fram undan sem augljóslega verður að vera í forgangi hjá nýrri ríkisstjórn og nýjum þingmeirihluta. Það er útséð um að þessi ríkisstjórn geri nokkuð af viti í þessum efnum, tíminn er einfaldlega hlaupinn frá henni hvað það varðar. Þetta er grafalvarlegt mál því að hér geta orðið stór slys ef menn huga ekki að því sem í vændum er. Það er dapurlegt að missa hvert sumarið á fætur öðru í hringli og vitleysu og deilum um hvernig eigi að fjármagna eðlilega fjárfestingu í innviðum sem væri að sjálfsögðu ekki tiltökumál að ríkið gerði einfaldlega (Forseti hringir.) þegar um þessa ört vaxandi atvinnugrein er að ræða. Ég vek athygli á þessu hér, herra forseti, vegna þess að þarna bíða stór verkefni þeirra sem taka við völdum í landinu í nóvembermánuði næstkomandi. (ÖS: Við vitum hverjir það verða.) Við sjáum til. [Hlátur í þingsal.]


Efnisorð er vísa í ræðuna