145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Fyrstu tengsl foreldra og barna eru mjög mikilvæg og í Bretlandi hafa bresk stjórnvöld beitt sér fyrir átaki sem nefnist 1.001 mikilvægur dagur í lífi nýfædds barns. Málið er mér sérstaklega hugleikið sem nefndarmanni í þverpólitískri nefnd á Alþingi um málefni barna og ungmenna. Markmiðið með breska átakinu er að stuðla að því að foreldrar myndi örugg og góð tengsl við barnið sitt á mikilvægasta mótunarskeiði þess, að foreldrar geti velt fyrir sér hugarástandi barnsins, eigin hugarástandi og sambandi þeirra á milli, að foreldrar geti greint eigin líðan frá líðan barnsins og brugðist við á viðeigandi hátt, að þeir geti brotið upp neikvæð mynstur sem hafa færst á milli kynslóða og dregið úr áhrifum þeirra á barnið, að foreldrar geti unnið úr reynslu sem er þeim fjötur um fót í foreldrahlutverkinu og að foreldrar finni til gleði í samskiptum við barn sitt og njóti samvista við það.

Góðu fréttirnar eru einmitt þær að von er á hingað til lands dr. Amöndu Jones sem er vísindamaður og sérfræðingur á þessu sviði og hefur verið einn helsti ráðgjafi breskra stjórnvalda í málinu og við innleiðingu á úrræðum fyrir foreldra þar sem sérstakri athygli er beint að því að vernda geðheilsu fjölskyldna á meðgöngu og fyrstu árin eftir fæðingu barns. Amanda kemur hingað á vegum Miðstöðvar foreldra og barna. Hún segist vilja miðla þessari reynslu og þessari stefnumótun í Bretlandi til íslenskra stjórnmála- og áhrifamanna. Ég skora á íslensk heilbrigðisyfirvöld að nýta sér þetta sem allra best.