145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Um störf þingsins er það að segja að engin mál liggja fyrir Alþingi. Í aðdraganda þessa haustþings fór ríkisstjórnin mikinn um það að stjórnarandstaðan mundi þvælast fyrir málum með málþófi fram eftir haustinu. En því er ekki að heilsa því að það koma einfaldlega engin mál frá ríkisstjórninni, hvorki ríkisstjórninni sjálfri né úr nefndum. Hér þurfti að hætta fundi á hádegi á föstudaginn og þau mál sem verið hafa á dagskrá þingsins frá því þá eru mál sem stendur ekki til að fullnaðarafgreiða á þessu þingi, eru bara lögð fram hér til kynningar og mætti eins gera á veraldarvefnum. Mér er ekki ljóst hvaða mál eiga að vera á dagskrá á morgun eða hinn og er ekki kunnugt um nein stærri mál sem verða á dagskránni. Málin í dag eru sama marki brennd því að ríkisstjórnin er farin að kalla eftir þingmannamálum til þess að það sé yfir höfuð eitthvað á dagskránni.

Virðulegur forseti. Þetta sýnir auðvitað betur en margt annað hvers vegna ákveðið hefur verið að boða til kosninga. Það hefur verið ákveðið að boða til kosninga þrátt fyrir stóran þingmeirihluta stjórnarflokkanna vegna þess að samstarf þeirra er komið að fótum fram, vegna þess að stjórnarflokkarnir ná ekki saman um nein stærri mál til þess að flytja í þinginu. Nú síðast var það hækkun á ellilífeyri sem ég hélt að væri samstaða um í öllum flokkum og Landssamband eldri borgara styddi. Ég innti fjármálaráðherra eftir því af hverju málið væri fast í ríkisstjórninni og þá kom í ljós að það er ekki fast í ríkisstjórninni heldur hefur félagsmálaráðherrann ekki einu sinni lagt málið fram. Það eru ekki nema fimm þingdagar eftir af starfsáætlun þessa kjörtímabils. Mál sem varðar kjör allra eldri borgara (Forseti hringir.) í landinu er ekki einu sinni komið fram í ríkisstjórn, hvað þá að það sé komið fram í þinginu eða hvað þá að nokkur von sé til þess að það verði orðið að lögum (Forseti hringir.) fyrir næstu viku. Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin á að sjá sóma sinn í að ljúka þessu þingi og efna til kosninga sem fyrst.