145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Frú forseti. Nú eru bara nokkrir dagar eftir af þessum þingstubbi sem byrjaði um miðjan mánuðinn. Ef mér reiknast rétt til eru sjö dagar eftir af þinginu. Það er mjög tæpt og því mikilvægt að við nýtum dagana vel. Það eru stór mál komin fram eins og um afnám verðtryggingar, frumvarp um fyrstu fasteign, LÍN-frumvarpið, búvörusamningar, samgönguáætlun og svo átti nú að vera von á frumvarpi hæstv. velferðarráðherra um lengingu fæðingarorlofs sem maður bíður spenntur eftir en aldrei kemur, og ég veit ekki hvað og hvað.

Sjö dagar eru eftir. Það er margt sem þarf að gera. En það liggur samt sem áður fyrir að þingfundir næstu daga verða styttir. Við eigum þá væntanlega ekki að vera að vinna í viðkomandi málum. Staðreyndin er sú að stóru málin sem um ræðir — og ég heyrði hér áðan að hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir kallaði eftir samgönguáætlun inn í þennan sal og ég tek undir með henni — við fáum bara ekkert að ræða þau. Það lítur út fyrir að þau stóru mál sem ég var að nefna séu bara eins konar skreyting fyrir stjórnarflokkana en það eigi svo ekkert að afgreiða þau. Af hverju erum við ekki að ræða samgönguáætlun? Hér í salnum eru meira að segja þingmenn sem hafa þetta ofarlega á stefnuskrá í sínu næsta prófkjöri. Af hverju vilja stjórnarþingmenn ekki ræða samgönguáætlun í þessum sal? Umhverfis- og samgöngunefnd hefur eiginlega ekki fundað á þessum stutta þingstubbi. Það er enginn (Forseti hringir.) að slæpast, það er alveg á hreinu. Það er bara ekki um neitt að tala, því miður.


Tengd mál