145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

meðferð einkamála.

657. mál
[14:23]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi síðara atriðið er það þannig að þetta er auðvitað hugsað þegar á að fara að reka mál fyrir dómi og þá þarf atbeina lögmanns til. Þeir koma því alltaf að gjafsóknarmálum. Ef ég skil kjarnann í spurningu hv. þingmanni rétt er hann hvort borgarinn geti með einhverjum hætti leitað sér aðstoðar, kannski enn þá fyrr, áður en til þess kæmi að … (FSigurj: Akkúrat rétt skilið.) Já, þá hygg ég að menn hafi reynt að veita alla þá leiðsögn sem mögulegt er. Ég hygg að það muni ábyggilega verða gert af hálfu sýslumanns. Þetta atriði hefur hins vegar ekki verið skoðað sérstaklega.

Hvað varðar fyrri spurninguna um hópmálsóknir, og kannski annars konar mál, þá er þarna fyrst og fremst hugsað um breytingu á útfærslu á gjafsóknarmálum, að færa gjafsóknir úr ráðuneyti til sýslumanns, og síðan þetta, að ydda það dálítið betur að þeim tekjuminni verði veitt aðstoð að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ég átta mig alveg á því hvað hv. þingmaður er að fara, eða tel mig vita það. Það geta komið upp alls konar annars konar mál. Ég þori ekki að fara með það úr þessum stól akkúrat núna hvort það sé eitthvað sem hafi verið skoðað í bakgrunninum. Ég tek ekki að svo hafi verið.