145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stjórn fiskveiða.

795. mál
[15:11]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem til þess að segja nokkur orð og fagna því að formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, hafi lagt þetta mál fram. Við í þingflokknum erum auðvitað með henni sem og fulltrúar frá Bjartri framtíð og Pírötum. Þetta er einfalt mál og mjög auðvelt að afgreiða á þessu sumarþingi, ólíkt ýmsum málum sem hér eru til umfjöllunar. Ég ætla að lesa tillögugreinina, breytinguna, þetta er sem sagt frumvarp. Þar segir að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:

„Ef heildarafli þorsks verður aukinn fyrir fiskveiðiárið 2016/2017, sbr. 1. mgr. 3. gr., skal ráðherra bjóða þann viðbótarkvóta út til hæstbjóðanda. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd útboðsins.“

Nýtt fiskveiðiár hefst 1. september. Það er ekki langt þangað til en svona reglugerð er auðvelt að setja. Þetta væri gott skref, ekki að ég vilji ráðleggja þessari ríkisstjórn sérstaklega heilt því að ég tel mjög mikið þjóðþrifamál að losna við hana sem fyrst svo við getum snúið við þeirri þróun sem þau hafa hrundið af stað, til að nálgast sátt við þjóðina um fiskveiðistjórnarkerfið. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir fór ágætlega misskiptingu auðs í þessu samfélagi.

Með því móti værum við að ganga þá leið að markaðsvæða aðgengi, stíga tiltölulega lítið skref en byrjunarskref í að markaðsvæða aðgengi að fiskveiðiheimildum sem eru engin smá gæði sem nú eru afhent. Einhverjar útgerðir hafa ekkert greitt fyrir veiðiheimildir sínar og aðrar þurfa að leigja þær af þeim sem fengu þær endurgjaldslaust. Fjármunirnir af þeirri leigu renna í vasa útgerðarmanna en ekki ríkissjóðs og íslensku þjóðarinnar.

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vill markaðsvæða skólakerfið, heilbrigðiskerfið, námslánakerfið og vegakerfið. En hún vill ekki markaðslögmál inn í landbúnað og sjávarútveg. Er ekki furðulegt að flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn, sem telur sig flokk atvinnulífsins og markaðarins, skuli vilja markaðsvæða það sem alls ekki á að markaðsvæða, sem er almannaþjónusta sem við eigum öll saman, en líti svo á berandi atvinnugreinar í þessu samhengi sem einhvers konar ölmusugreinar sem fái dúsur eins og pilsfaldakapítalismanum sæmir?

Ég vil bara segja að tel að það eigi að halda fund í atvinnuveganefnd strax að loknum þessum fundi til að senda þetta mál út til stuttrar umsagnar svo að hægt sé að samþykkja þetta fyrir fiskveiðiárið og stíga lítið skref í sáttaátt og kanna hvernig gangi með uppboð aflaheimilda. Af hverju tel ég ólíklegt að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur verði við þessu? Jú, það sem þeir flokkar óttast allra mest er að með uppboði verði sýnilegur sá arður sem árlega er hafður af þjóðinni með því að afhenda auðlindina fáum útvöldum á gjafverði.