145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stjórn fiskveiða.

795. mál
[15:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu en mér finnst mikilvægt við tilefnið að vekja athygli á stefnu Pírata í sjávarútvegsmálum. Hún felur í sér meðal annars að taka upp ákvæði úr frumvarpi stjórnlagaráðs efnislega og sömuleiðis að íslenska ríkið fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar, skuli bjóða aflaheimildir upp til leigu á opnum markaði og skuli leigugjaldið renna í ríkissjóð og skuli öll úrslit uppboða vera opinberar upplýsingar. Það er fleira í þessari stefnu en einungis þetta, en sem meðflutningsmaður á þessu ágæta máli fannst mér mikilvægt að nefna að það verður sífellt víðtækari sátt, vil ég meina, í samfélaginu við að fara þessa uppboðsleið. Hún er sanngjörn. Hún er markaðslausn. Mér finnst stundum svolítið skrýtið að þeir sem kalla sig til hægri séu ekki hlynntari þeirri aðferð, því að hún er að mínu mati mjög góð og í raun og veru engar málefnalegar ástæður fyrir því að fara hana ekki ef markmiðið er það að útdeila veiðiheimildum á einhvern skynsamlegan hátt út frá bæði hagfræðilegum forsendum og sanngirnisforsendum, þ.e. gagnvart þjóðinni og sömuleiðis þeim sem mundu bjóða í aflaheimildir.

Það var nú ekki fleira sem ég ætlaði að nefna hér en að vekja athygli á þessari stefnu og því að ég hygg að þessi leið, uppboðsleiðin, verði með tímanum að veruleika. Það er bara spurning um hversu mikið er kvartað og kveinað á þeirri vegferð.