145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[15:42]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu sína um þetta mál sem er auðvitað allrar athygli vert. Ég tek undir með hv. þingmanni að umhverfismálin eru nokkuð sem allir stjórnmálaflokkar ættu að láta sig varða en ég bendi líka á að umhverfismál eru ekki takmörkuð við umræðu um eitthvað sem menn geta bent sérstaklega á í umhverfinu heldur fer náttúruvernd fram með ýmsum hætti, ekki síst þeim að bæta kjör og hag heimilanna í landinu þannig að hvert og eitt okkar geti látið sig umhverfismálin varða með ýmsum hætti, t.d. með því að skipta út gömlum mengandi bifreiðum fyrir minna mengandi bíla og jafnvel þvottavélum svo maður víkki umræðuna aðeins út fyrir það sem mönnum er gjarnt að einblína á þegar kemur að umhverfismálum.

Að forminu til velti ég reyndar fyrir mér, af því að hv. þingmaður nefndi að í gær hefði hæstv. atvinnuvegaráðherra mælt fyrir þingsályktunartillögu um orkuskipti, sem auðvitað er vert að ræða, hvort þessi tillaga hefði ekki átt að vera aðeins víðtækari en hún er. Hún felur í sér ályktun á hendur hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, en hefði ekki verið nær að beina henni til allrar ríkisstjórnarinnar?

Ég fagna því að hér er vísað í svar til mín frá hæstv. umhverfisráðherra um skiptingu á raunverulegri losun koltvísýrings á Íslandi og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ekki sé einboðið að menn sammælist (Forseti hringir.) um að nota sem réttastar tölur þegar kemur að því að ræða heildarlosun Íslendinga á koltvísýringi. Mér hefur fundist því bregða fyrir í umræðunni að menn miði við rangar tölur eingöngu með vísan til bókhaldslegra æfinga.