145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[15:45]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, umhverfismálin varða alla flokka, sagði hv. þingmaður, og benti á að það væri mikilvægt að almenningur léti sig þessi mál varða og hefði svigrúm til þess. Að sjálfsögðu skiptir miklu máli að almenningur láti sig þessi mál varða, einstaklingarnir geri það í sinni tilvist sem þeir geta til að ná þessum markmiðum. En mér finnst líka mikilvægt að benda á að stjórnvöld hér á landi hafa undirgengist ákveðnar skuldbindingar. Það er á ábyrgð stjórnvalda að smíða þann ramma þannig að stofnanir, atvinnulíf og almenningur í landinu geti staðið við þær skuldbindingar. Það er stjórnvalda að bera ábyrgðina þó að það sé auðvitað mikilvægt líka að almenningur taki þátt. Að sjálfsögðu er líka mikilvægt að kjör fólksins í landinu spili þar inn í en ég held að það sé mikilvægt að við undirstrikum að stjórnvöld bera ákveðna ábyrgð á þessum skuldbindingum. Stundum finnst mér í umhverfisverndarumræðu að of mikilli ábyrgð sé vísað á einstaklinga, að þeir beri hver og einn þá ábyrgð sem ég held að við verðum að leysa sameiginlega.

Hvað varðar þingsályktunartillöguna sjálfa og formið er hér lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að móta áætlunina vegna þess að loftslagsmálin heyra undir umhverfis- og auðlindaráðherra. Ég nefndi í framsögu minni að kannski væri eðlilegast um þessi rosalega stóru mál sem verða að hafa áhrif á alla stefnumótun — eins og hv. þingmaður benti réttilega á er orkuskiptaáætlun til umræðu, það er verið að ræða málin á ýmsum vígstöðvum í ýmsum ráðuneytum. Kannski væri eðlilegast að forsætisráðherra færi með þennan málaflokk og hefði yfirumsjón með honum til að tryggja framgang hans í ólíkum málaflokkum. Það kann að vera að hv. umhverfis- og samgöngunefnd, sem ég mun leggja til að málið fari til, komist að þeirri niðurstöðu að það sé eðlilegt að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar sem heildar því að málið varðar ólík ráðuneyti.

Að sjálfsögðu er eðlilegt að tala um réttar tölur. Ég fór yfir það í ræðu minni að þar er annars vegar ákveðinn munur hafður á í umræðunni sem vitnar til (Forseti hringir.) hins alþjóðlega losunarbókhalds og hins vegar heimilisbókhaldsins, getum við sagt á Íslandi. Ég kem nánar að því í síðara andsvari.