145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[15:50]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Bara svo ég fái að ljúka því getur það verið ruglandi, eins og ég sagði í ræðu minni, að við erum annars vegar aðilar að alþjóðlegu losunarbókhaldi og svo erum við með það sem ég kallaði því óvirðulega orði heimilisbókhald, þ.e. losunarbókhald fyrir Ísland. Þegar stjórnvöld ræða það hvernig eigi að draga úr losuninni hafa þau eiginlega sagt að það sem er inni í alþjóðlega losunarbókhaldinu komi ekki einu sinni til greina, það kom ekki til greina að ræða að það sé bara horft á heimilisbókhaldið í raun.

Ég spyr hvort við séum ekki að tala um eitt og sama andrúmsloftið. Auðvitað skiptir máli að við séum með einhvern sameiginlegan skilning á því þegar við ræðum þessi mál, af því að hv. þingmaður spyr um tölur.

Í þessari greinargerð eru nefndar ýmsar aðgerðir. Hv. þingmaður hefur lýst sérstökum áhuga á endurheimt votlendis, svo dæmis sé tekið, sem mikilvægri aðgerð. Það sem mér finnst mikilvægt er að við horfum á þetta á öllum sviðum og líka á að það að draga úr losun gróðarhúsalofttegunda megi ekki hafa önnur vistfræðileg áhrif til ills, þ.e. að við metum áhrif þess sem við gerum. Þess vegna ræddi ég nauðsyn þess að við tökum mið af nýjustu rannsóknum og þekkingu þegar við erum að reyna að taka ákvarðanir um hvað við ætlum að gera til að draga úr losun. Það er mjög mikilvægt að við drögum ekki aðeins úr losun heldur séum mjög meðvituð um hvaða önnur vistfræðileg áhrif það getur haft. Ég tek dæmi af handahófi, við getum horft á það að rætt sé um að rækta einhvers konar einsleitan skóg til að tryggja að við framleiðum meira súrefni, en það getur haft einhver áhrif á vistkerfið sem við viljum líka sjá fyrir. Þess vegna fagnaði ég því áðan að það hefði verið samþykkt að stofna loftslagsráð því að við þurfum að nýta þá þekkingu sem við höfum og reyna að sjá fyrir eins og við mögulega getum hvaða áhrif aðgerðir okkar hafa. Og ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um það og ég fagna áhuga hennar (Forseti hringir.) á þessu máli því að eins og ég sagði í upphafi munum við ekki ná árangri nema við náum sem bestri þverpólitískri samstöðu um þetta mál.