145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[15:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa stuðningi mínum við þessa tillögu til þingsályktunar um stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050, enda er ég ein af meðflutningsmönnum tillögunnar. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur farið ágætlega yfir málið en það sem mig langaði að bæta við og taka inn í umræðuna er mikilvægi þess að við skoðum þessi mál alltaf heildrænt, þ.e. með öll þau mál sem við erum með til umfjöllunar á Alþingi og hv. þingmaður kom reyndar aðeins inn á í framsöguræðu sinni.

Ég á sæti í hv. utanríkismálanefnd þar sem við erum núna með hinn svokallaða tollasamning við Evrópusambandið til umfjöllunar. Í meðförum nefndarinnar er búið að eyða dágóðum tíma í þann samning sem er auðvitað gott og blessað og hann hefur verið skoðaður út frá hagsmunum og áhrifum til að mynda á bændur, tilteknar búgreinar og áhrif sem tollasamningurinn mun hafa á verslun og neytendur. Ég tel fullkomlega eðlilegt og rétt að nefndin eyði góðum tíma í að skoða þá þætti.

Það sem ég og fleiri í hv. utanríkismálanefnd höfum hins vegar gagnrýnt er að með málinu vantar ýmis konar greiningar á áhrifum samningsins, til að mynda í umhverfislegu tilliti, þar sem engin greining hefur verið unnin á því t.d. hvaða vistspor samningurinn, verði hann samþykktur, hefur. Því hefur meðal annars verið borið við að málið sé jú tollasamningur og hann sé því ekki vettvangurinn til að vera að fjalla um til að mynda umhverfisvernd. Það má kannski segja að auðvitað sé ekki beinlínis hægt að taka á umhverfismálum í tollasamningi. Hins vegar finnst mér að það verði með samning sem þennan, sem er jú þannig að búið er að skrifa undir hann með stjórnskipulegum fyrirvara, þannig að Alþingi hefur um það eitt að velja að hafna honum eða samþykkja, að þá hljóti auðvitað að þurfa að liggja fyrir greining á áhrifunum sem hann kemur til með að hafa á hina ýmsu þætti samfélagsins. Þess vegna finnst mér mjög bagalegt að ekki hafi verið unnin greining á honum í umhverfislegu tilliti til að hægt sé að taka það með inn í heildarmyndina þegar kemur að því að greiða atkvæði annaðhvort með honum eða gegn honum.

Þetta tel ég að sé aðeins eitt dæmi sem sýni þörfina á stefnumótun og í raun um það hvað við eigum langt í land. Það er fullt af öðrum málum sem hægt er að nefna sem dæmi þar sem vantar alla greiningu, alla stefnu um hvert verið er að fara með hverju einstöku tilteknu máli þegar kemur að loftslagsmálum. Það er meðal annars þess vegna sem ég tel að þessi þingsályktunartillaga sé alveg gríðarlega mikilvæg og einmitt farin hér rétt leið, að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að vinna að slíkri stefnumörkun. En ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagði í framsöguræðu sinni að kannski á þetta hreinlega að heyra undir forsætisráðuneytið. Ef okkur er einhver alvara með því að við viljum taka loftslagsmálin alvarlega þá er þetta mál sem þarf að fara niður í gegnum öll þau mál sem frá okkur koma sem Alþingi.

Mig langaði að nota tækifærið til að benda á þetta í samhengi við þetta tiltekna þingmál, þ.e. tollasamninginn, sem við erum núna með til umræðu á Alþingi og nota það sem dæmi um hvar ég tel að einmitt stefnumörkun, aðgerðaáætlun, það að vera með eitthvað í höndunum, mun hjálpa til við að við getum tekið upplýsta ákvörðun um hvort við viljum styðja eða hafna, eða í öðrum málum þar sem hægt er að gera breytingar, hvort og þá hvaða breytingar við teljum nauðsynlegt að gera á málunum. Þess vegna held ég að þetta sé þingsályktunartillaga sem talar inn í framtíðina og þau framtíðarvinnubrögð sem við verðum að viðhafa á Alþingi. Þess vegna vonast ég til að hún verði samþykkt og að strax verði hafist handa við að vinna eftir henni. Raunar má kannski segja að það sé svolítið dapurlegt að þetta komi fram sem þingmannamál. Auðvitað ætti þetta að koma frá hv. umhverfis- og auðlindaráðherra. En fínt, tillagan er komið fram hérna og ég vona að við samþykkjum hana og byrjum að vinna.