145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[16:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að í tollasamningnum er fjallað um innflutning á hinum ýmsu landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu. Þar eru vissulega m.a. undir ostar en einnig ýmsar aðrar matvælategundir. Við sitjum uppi með þá stöðu að við verðum annaðhvort að samþykkja samninginn í heild sinni eða hafna honum í heild sinni. Utanríkismálanefnd getur ekki pikkað út einhverja ákveðna þætti og sagt: Jú, það er fínt, við þurfum að flytja inn hér meira af þessari tegund af osti.

Á spýtunni hangir, ef svo má segja, einnig innflutningur á margs konar öðrum landbúnaðarafurðum og hefur m.a. mikið verið rætt um hvítt kjöt, bæði þá alifuglakjöt og svínakjöt. Umræðan hefur m.a. verið um það við hvaða aðstæður þetta kjöt er framleitt í öðrum löndum. Eins mögulegur innflutningur á nautakjöti. Það sem ég er að segja er að þá þurfum við að hafa einhverja greiningu á því t.d. hvert vistspor þess kjöts sem framleitt er í þessum löndum Evrópusambandsins er miðað við vistspor þess kjöts sem við neytum á innanlandsmarkaði. Við getum ekki gert annað en annaðhvort hafna öllu eða samþykkja allt. Það er ekki hægt að pikka út einhverjar ákveðnar afurðir. Það er fullt af spennandi ostum sem ég gæti vel hugsað mér að borða. Málið er stærra en það. Það er þess vegna sem ég tel svo mikilvægt að við höfum greiningar á heildarsamhenginu þó svo að það sé ýmislegt sem ég held að (Forseti hringir.) sé jafnvel nauðsyn að flytja inn, því að við munum jú alltaf þurfa að flytja inn einhver matvæli.