145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[16:02]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil hv. þingmann þannig að það hefði verið henni helst að skapi að hefta innflutning með tollum á þeim landbúnaðarvörum sem ekki eru framleiddar hér. Hún bendir réttilega á að það er ekki hægt að gera í þessu. Það þarf að samþykkja þennan samning allan eða ekki. En ef ég skil hv. þingmann rétt hefði hún helst viljað gera það. Þá kemur alltaf sú spurning upp: Hvað er hægt að framleiða hér á landi og hvað ekki? Það breytist frá einum tíma til annars, mjög ört. Ekki síst í samræmi við eftirspurn. Allt í lagi. Það kemur kannski engum á óvart að okkur greinir verulega á, hv. þingmann Vinstri grænna og mig, um það að hvaða leyti er hægt að takmarka verslunarfrelsi einstaklingsins að þessu leyti. En hún nefndi sérstaklega landbúnaðarafurðir. Ég velti því þá líka fyrir mér, af því að við afnámum t.d. tolla og vörugjöld á fatnaði og skóm ekki fyrir svo löngu síðan, hvort það hefði kannski líka staðið í hv. þingmanni út frá vistsporskenningunni sem hún nefnir svo. Hér er auðvitað hægt að framleiða leðurbuxur álíka þeim sem sjást í þingsal í dag. Er það markmið hennar eða það sem hún vildi vilja sjá, tollar á t.d. innflutningi á slíkum klæðnaði, jafnvel þótt hann sé ekki úr landbúnaðarafurðum eða tengdur landbúnaðarafurðum, fatnaði almennt, með vísan til vistspors? Er það stefna hv. þingmanns?