145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[16:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til þess að lýsa yfir fullum stuðningi við þessa tillögu til þingsályktunar frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Síðast í dag fengum við á forsíður netmiðlanna að eftir tvö ár verði opin siglingaleið um norðurpól. Slík opnun muni flýta fyrir bráðnun Grænlandsjökuls. Í hverjum mánuði er verið að slá hitamet. Það er að hitna. Við erum komin í þá stöðu. Því miður eru loftslagsbreytingar af völdum gróðurhúsaáhrifa orðnar mjög nærtækur veruleiki, sérstaklega á ákveðnum stöðum í heiminum, fyrir íbúa jarðarinnar. Það er mjög mikilvægt að við sem rík þjóð, sem búum yfir miklu af endurnýjanlegum orkugjöfum, tökum okkar ábyrgð og setjum stefnu sem þessa um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

Ég ætlaði bara að koma hingað upp og lýsa yfir ánægju með þessa tillögu frá félögum mínum í Vinstri grænum. Ég ætlaði líka að lýsa yfir áhyggjum af því að ríkisstjórnin hafi ekki komið fram með aðgerðaáætlun sem byggir á Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál frá því á fundi Sameinuðu þjóðanna í fyrra í París. Hæstv. umhverfisráðherra sagði að hún ætti að koma inn í þingið núna á sumarþingi. Auðvitað er það mál utanríkisráðherra. Þarna er um alþjóðlegan samning að ræða. Það veldur mér áhyggjum að ríkisstjórnin sé ekki komin með það mál til þings núna. Loftslagsmálin eru auðvitað stóra málið. Það er við mörg stór mál að glíma á vettvangi stjórnmálanna en þetta er stærsta málið. Þetta er ógn við líf á jörðinni. Þetta kemur misilla niður á okkur jarðarbúum en er á sameiginlegri ábyrgð okkar að bregðast við af miklu meiri staðfestu en hingað til. Vissulega líða loftslagsmálin fyrir það að passa illa inn í kjörtímabilafyrirkomulagið. Hér þurfum við að hugsa langt fram í tímann. Við þurfum að taka ábyrgð langt út fyrir landsteinanna. Ísland er í mjög góðri stöðu til þess að sýna gott fordæmi. Sem sagt, herra forseti, ég styð þetta mál heils hugar og þakka fyrir að það hefur verið lagt fram.