145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[16:10]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að fá að leggja orð í belg varðandi þessa þingsályktunartillögu sem liggur fyrir. Ég minni á að í gær lagði hæstv. atvinnuvegaráðherra fram þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um orkuskipti. Það kann að vera að þessar tvær þingsályktunartillögur skarist eitthvað örlítið en allt að einu þá er sjálfsagt, hafi menn áhuga á því að einangra koltvísýringsumræðuna eða umræðuna um losun koltvísýrings, að taka hana sérstaklega fyrir á þessum vettvangi.

Ég velti því fyrir mér hvort þingsályktunartillögu sem þessari hefði ekki réttilega frekar verið beint að ríkisstjórninni allri. Ég held að hv. þingmaður, flutningsmaður þessarar tillögu, og ég séum sammála um að umhverfismál eru auðvitað ekki einkamálefni eða sérmálefni sem getur heyrt undir eitt ráðuneyti umfram önnur heldur miklu víðtækara mál. Að því leyti kemur mér einnig svolítið ankannalega fyrir sjónir sú þingsályktunartillaga sem mælt var fyrir í gær af hæstv. atvinnuvegaráðherra, fyrir utan einstaka aðgerðir sem þar voru boðaðar. Ég vildi bara nefna þetta formsins vegna.

Það er líka þannig að umhverfismál eru ekki sértæk hvað stjórnsýsluna eða stjórnmálin varðar. Umhverfismálin varða alla stjórnmálaflokka, eru þverpólitískt mál. Umhverfismálin eru líka í sínum víða skilningi efnahagsmál, a.m.k. til jafns á við sérstakt umhverfismál. Ég held því að það væri vel til þess fallið í þágu náttúruverndar og umhverfismála ef menn næðu að víkka umræðugrundvöllinn, ef ég má leyfa mér að nota það leiðinlega orð, út fyrir sértæka umræðu um náttúruvernd eða umhverfismál.

Mig langar í þessum umræðum að minna á svar sem hæstv. umhverfisráðherra veitti mér við fyrirspurn minni á síðasta vetri á þessu þingi. Þá var spurning mín hvernig losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi skiptist á geira. Ég fékk áhugavert svar, svo ekki verði meira sagt, og miðað við hina þröngu umræðu um umhverfismál og aðgerðir í umhverfismálum þá kann að hafa komið einhverjum á óvart hvernig þessi skipting er á losuninni. Í svarinu kemur fram að miðað við bestu fáanlegu upplýsingar stafa 72% af losun koltvísýrings á Íslandi frá framræsingu lands sem hefur átt sér hér stað síðustu 50 árin eða svo. Einungis 4% stafa frá samgöngum á landi, þ.e. hefðbundinni bílaumferð, og 3% frá sjávarútvegi, frá öðrum samgöngum eitthvað minna. Þetta fannst mér áhugavert í ljósi þeirra aðgerða sem menn hafa gripið til í nafni umhverfisverndar og beitt fyrir sig í umræðu um umhverfismál, ekki síst aðgerðir vinstri stjórnarinnar á síðasta kjörtímabili. Þá var vegið mjög harkalega að bílaeigendum, heimilum í landinu, með sértækum aðgerðum.

Látum það vera þótt menn hefðu viljað draga úr bílaumferð. Það kemur kannski engum á óvart að mig greini á við vinstri menn um það. En aðgerðirnar, svo sértækar sem þær voru, og eins og slíkar aðgerðir eru auðvitað, fólu í sér svo mikla neyslustýringu að svo dæmi sé tekið hefur fólk í stórum stíl verið hrakið úr því að keyra bensínbíla yfir í dísilbíla. Þetta var gert með því að vinstri stjórnin lagði á sérstakt bifreiðagjald sem miðar við kolefnisútblástur eða losun á koltvísýringi úr bifreiðum og hyglaði þannig dísilbílum mjög umfram bensínbíla. Eftir því sem ég kemst næst hefur markaðshlutdeild dísilbíla í dag, frá árinu 2013–2015 reyndar, ég held að það sé orðið miklu hærra núna, aukist úr 30% í 50% í sölu á nýjum bílum á Íslandi. Þetta er töluvert miklu hærra í dag, árið 2016. Það er reyndar þannig að ég var að skoða bíla um daginn og mér var hreinlega sagt að það væri mjög erfitt að fá bensínbíla. Það væru bara dísilbílarnir vegna þess að bensínbílarnir gætu ekkert keppt í verði við dísilbílana vegna skattlagningar og skattumgjarðar stjórnvalda. Þá verður líka að hafa með varðandi dísilbílana að þetta er ekki aðeins neyslustýring heldur hefur þetta í för með sér mjög óhagkvæma neyslustýringu vegna þess að dísilbílar eru almennt 12% dýrari í innkaupum. Menn eyða meiri gjaldeyri til að kaupa dýrari bíla. Ég ætla svo sem ekki að hafa skoðun á því á hvernig bílum menn þurfa að halda og tala bara fyrir mig en ég hef ekkert við dísilbíl að gera.

Hið alvarlega í þessu er það að dísilbílarnir menga meira og hættulegar en bensínbílarnir. Þeir skilja eftir sig niturúrgang, sótagnir sem meira að segja hörðustu umhverfissinnar eru núna sannfærðir um að séu miklu hættulegri en losun koltvísýrings. Ég vil nefna þetta sem dæmi um hvað getur gerst þegar menn ætla að reyna að hagræða öllum smáatriðum í neyslu manna og stýra neyslu manna, í þessu tilfelli í þágu umhverfisverndar, en horfa svo þröngt á málið að þeir missa sjónar á alls kyns ófyrirsjáanlegum hliðarverkunum, nýjum upplýsingum sem kunna að koma upp síðar meir og geta ekki brugðist við því með nauðsynlegum hætti eins og þyrfti að gera. Ég vona að núverandi ríkisstjórn leggi allt kapp á að ljúka vinnu við þetta, en mér skilst að endurskoðun á öllu þessu standi yfir í fjármálaráðuneytinu. En það er mikilvægt að halda þessu til haga því að ég er viss um að hv. þingmaður, flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu, og ég erum alveg sammála um að það sé algerlega óviðunandi að stýra mönnum í neyslu á því sem að allra manna bestu vitund er meira mengandi en það sem fyrir var. Þetta er afleiðingin af gerðum vinstri stjórnarinnar á síðasta kjörtímabili. Henni er vorkunn, vinstri stjórninni, af því að á þeim tíma byggði hún kannski á þeim upplýsingum að samgöngur á landi eða bílanotkun á Íslandi stæði undir allri losun koltvísýrings á Íslandi. En nú liggur a.m.k. fyrir að svo er ekki. Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna eða vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar hefur ákveðið að bæta þeirri aðferðafræði varðandi losun frá framræstu votlendi við reiknireglu sína og viðurkennir að endurheimt votlendis geti verið einn liður í því að draga úr losun koltvísýrings frá tilteknu landi. Þetta held ég að Íslendingar þurfi að skoða mjög vandlega, möguleikann á þessu. Vilji menn draga úr raunverulegri losun á Íslandi, ekki aðeins bókhaldslosun, þá þurfa menn að skoða raunverulegar tölur um losun og hvar hægt er að ná raunverulegum árangri áður en menn fara að leggja gríðarlegar skattbyrðar á heimilin í landinu og mögulega, eins og liggur fyrir í dag, beina mönnum út í meira mengandi neyslu en áður var.

Ég vil að lokum þakka fyrir umræðuna og (Forseti hringir.) og tek svo sem afstöðu til þessa máls þegar þar að kemur í atkvæðagreiðslu.