145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[16:44]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til að koma hingað upp til að andmæla texta í greinargerð þessarar þingsályktunartillögu þar sem því er haldið fram að stjórnarflokkarnir hafi í aðdraganda síðustu kosninga, báðir — hv. þm. Óttarr Proppé sem flutti ræðuna tók fram að báðir flokkarnir hafi gefið fyrirheit um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður á kjörtímabilinu í aðdraganda kosninganna. Ég skora á hv. þingmann að styðja þessa fullyrðingu með dæmum. Í aðdraganda kosninganna var Framsóknarflokkurinn mjög skýr í sinni afstöðu til aðildar. Hún var ekki æskileg. Við færðum mikil rök fyrir því hvers vegna ætti ekki að halda áfram viðræðum og það var fjarri okkur sem stóðum í þeirri kosningabaráttu nokkurn tímann að gefa fyrirheit um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Í aðdraganda síðustu kosninga voru engin slík fyrirheit gefin. Ég vil bara koma þessu á framfæri. Ef hv. þingmaður hefur dæmi um annað þá mundi ég gjarnan vilja sjá þau.

Annað sem mætti segja. Í kosningunum sjálfum kom náttúrlega í ljós að flokkar sem töluðu skýrt fyrir aðild að Evrópusambandinu fengu minna en 20% af atkvæðum. Það segir kannski ákveðna sögu.

En ég er með aðra spurningu sem ég vildi beina til hv. þingmanns. Telur hann að það sé gott eftir að hafa gert eitt bjölluat í Brussel, leggjandi þar inn umsókn sem var án samhengis við vilja þjóðarinnar — er ekki algjört skilyrði að þjóðinni hugnist aðild áður en lagt er í það að leita eftir samningi um aðild? Núna hafa skoðanakannanir í fimm ár í röð sýnt að þjóðinni hugnast ekki aðild. Í augnablikinu eru 70% andvíg, 30% hlynnt. Af þeim 30% sem teljast vera hlynnt aðild þá eru þau með fyrirvara. (Forseti hringir.) Setur hv. þingmaður fyrirvara við sinn áhuga á aðild að Evrópusambandinu eða er hann tilbúinn að ganga í það eins og er?