145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[16:46]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég tel allar líkur til þess að mér mundi hugnast að ganga í Evrópusambandið, en auðvitað geri ég við það fyrirvara um að samningurinn sem næðist við Evrópusambandið væri þóknanlegur, væri almennilegur. Ég geri þann fyrirvara að þegar sá samningur liggur ljós fyrir verði hann lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar.

Árið 2009 tekur lýðræðislega kjörið Alþingi þá ákvörðun að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er sama aðferðafræði og öll önnur lönd sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu hafa viðhaft. Lýðræðislega kjörið Alþingi hefur ekki tekið aðra ákvörðun hvorki fyrir né eftir kosningarnar 2013. Mér finnst því mikilvægt að sú ákvörðun standi eða þá að lögð sé fram fyrir Alþingi tillaga um annað, svo ég svari þeirri spurningu hv. þingmanns.

Þegar Alþingi tekur ákvörðun 2009 er, eins og við munum í skoðanakönnunum, talsverður vilji fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið, en allar skoðanakannanir hafa verið með þeim fyrirvara að ljúka ætti samningum og sjá hvernig þeir litu út.

Þegar ég vitnaði áðan í loforð um þjóðaratkvæðagreiðslur vitnaði ég í umræður í aðdraganda kosninganna 2013, þá sérstaklega formann (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins, sem orðaði það sem svo (Forseti hringir.) ef ég man rétt, að það væri (Forseti hringir.) tilvalið að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu á fyrri hluta kjörtímabilsins.