145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[16:51]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta voru dálítið margar spurningar en ég skal reyna að svara þeim sem flestum.

Almennt eru þjóðaratkvæðagreiðslur leiðbeinandi fyrir þingmenn. Ég mundi segja að þetta væri fyrst og fremst leiðbeining auðvitað. Mér þætti aftur mjög skrýtið að þingið mundi ekki fylgja þeirri leiðbeiningu, og það hefur nú aldeilis þótt sérstakt þegar það hefur ekki verið gert, eins og t.d. þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána.

Þegar viðræðurnar voru stoppaðar af í upphafi árs 2013 var það einhliða ákvörðun íslenskra stjórnvalda. Viðræðurnar sigldu ekki í strand. Það var einhliða ákvörðun íslenskra stjórnvalda að setja þær á ís fram yfir kosningar 2013. Ný ríkisstjórn sem tók við 2013 kaus að halda þeim áfram á ís. Ríkisstjórnin hefur á þessu kjörtímabili ekki lagt fyrir og fengið samþykkt á Alþingi ákvörðun um að snúa til baka ákvörðun Alþingis frá 2009 um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þjóðþing og ríkisstjórnir allra aðildarlanda Evrópusambandsins, utan reyndar Króatíu sem gekk í sambandið eftir að Ísland sótti um aðild 2009, samþykktu að ganga til viðræðna við Ísland um aðild að Evrópusambandinu. Mér vitanlega hafa þessar samþykktir ekki verið dregnar til baka þannig að ég hef ekkert fyrir mér í því annað en að vilji Evrópusambandsins og ríki Evrópusambandsins til að halda áfram og ljúka aðildarviðræðum við Íslendinga standi eins og áður.