145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[17:02]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu Bjartrar framtíðar, allra þingmanna úr þeim flokki, um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna, eða eins og þau segja: Að taka upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Ég kem upp til að gera ýmsar athugasemdir við þessa tillögu. Ég mun líka í ræðu minni fjalla örlítið um þær umræður sem voru rétt á undan þar sem menn ræddu kosti og galla ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslna, en á þeim hef ég líka skoðanir.

Víkjum fyrst að þessari þingsályktunartillögu. Eins og ég kom inn á í andsvörum við flutningsmann er ekkert á vísan að róa með það að Evrópusambandið hafi áhuga á því að taka upp þráðinn. Það er einkennilegt að leggja í þjóðaratkvæðagreiðslu eitthvað sem er ekki á valdi okkar sem þingmanna að fylgja eftir. Yfirleitt er þjóðinni boðið upp á val í þjóðaratkvæðagreiðslum. Afstaða Svisslendinga til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslna er að þær séu lýðskrum. Svisslendingar nota bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Þjóðin, kjósendur í Sviss, hafa valdið til þess að kalla eftir málum til sín, bæði hafa þeir frumkvæðisrétt og líka málskotsrétt til að skjóta málum til þjóðaratkvæðis. Það eru þá bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Gallinn við ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur að mati þeirra sem hafa fjallað um þetta er sú hætta að þær séu notaðar í þeim tilgangi, þær séu nánast lýðskrum. Þær eru ekki bindandi, þær vekja ótal spurningar eins og kom fram í andsvörum áðan um hvort þingmenn séu bundnir af þessu eða ekki eða hvort þeir eigi að fylgja eigin sannfæringu, hvað þeir eigi að gera ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar er ekki mjög afgerandi, þjóðin skiptist nánast í jafnar fylkingar um það hvað eigi að gera. Hvert er þá hlutverk og ábyrgð hins réttkjörna fulltrúa á þingi og skylda hans við stjórnarskrána að fylgja sannfæringu sinni og þeim loforðum sem hann gaf kjósendum sínum? Ég verð að segja fyrir sjálfan mig að ég komst hingað inn á þing í krafti þess að ég sagði: Ég er andvígur aðild að Evrópusambandinu. Ég mun aldrei ýta á neinn annan takka en þann sem dregur úr líkum á að við verðum aðilar að Evrópusambandinu. Það er alveg ljóst. Það er skylda mín við kjósendur mína. Ég mundi aldrei hafa sagt að ég mundi berjast hér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um það að halda áfram viðræðum sem fyrri ríkisstjórn hafði stoppað án þess að spyrja kóng eða prest. Og hér erum við sökuð um að hafa stoppað þær án þess að spyrja kóng eða prest. Það á að vera eitthvert tilræði. En stjórnvöld sem beinlínis sóttu um, þau stoppuðu þær. Hv. flutningsmaður hafði mjög þung orð um næstu ríkisstjórn sem barðist beinlínis gegn aðild og stöðvaði síðan aðildarviðræðurnar sem hafði rekið í strand, svo sannarlega, eins og lesa má um í skýrslum um málið og framvindu þessara viðræðna. Þær kostuðu alveg ógnarlega mikið átak í íslenska stjórnkerfinu á tíma sem við þurftum á stjórnkerfinu að halda til þess að vinna úr þeim stórkostlegu vandamálum sem hér voru. Það var lagt í þessa lautarferð með þeim fögru fyrirheitum um að þetta mundi taka stuttan tíma, 18 mánuði, og þá gætum við verið orðin aðilar að ESB, þeirri mildu móður sem mundi bjarga öllum málum, evran mundi kippa öllu í liðinn og hin milda Merkel mundi bjarga okkur — eins og hún hefur ekki bjargað Grikkjum.

Nú höfum við séð hver bjargræðisleið þríeykisins er. Nú höfum við séð að evran er ekki lausnin, hún er núna kölluð stærsta efnahagsvandamál Evrópu. Sjálft myntbandalagið er efnahagsvandamálið. Mjög virtir hagfræðingar hafa skrifað um þetta vandaðar greinar sem ég held að menn verði eiginlega að fara að skoða. Þetta er ekki lengur sama Evrópusambandið og sótt var um aðild að 2009. Bara á þeirri forsendu eru allar forsendur brostnar fyrir því að halda áfram með viðræðurnar. Það þarf a.m.k. að fjalla um það alveg upp á nýtt hvernig Evrópusambandið er í dag. Á hvaða leið er það, hvernig hefur það reynst í þeim erfiðleikum sem dunið hafa yfir? Það er ekki lengur stækkandi samband, það er að hnigna og Bretar eru á leiðinni út. Ég ætla rétt að nefna að þetta er mjög mikilvægt ríki í viðskiptum okkar, þ.e. Bretar. Ég var að kíkja á það rétt áðan að heildarútflutningur okkar til Bretlands er jafn mikill og allur útflutningur okkar til Þýskalands og Spánar samtals. Þetta er verulega stór viðskiptaaðili. Þetta þýðir að ef það hefur verið einhver viðskiptaleg ástæða fyrir því að vera í Evrópusambandinu hefur sú ástæða minnkað um tvö risastór lönd.

Ég verð bara að segja að það er ekkert hægt að taka upp þráðinn í viðræðum við ESB sem er orðið allt annað ESB. Það er heldur ekki hægt að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu 29. október 2016 þegar það stendur í lögum að það þurfi að vera þrír mánuðir til að ræða, til að þjóðin fái ráðrúm til að ræða. Það er ekki að ástæðulausu sem ákvæðið er í lögum. Hérna er boðað að það eigi að koma frumvarp til breytingar á þeim lögum. Það er ástæða fyrir því að þjóðin þarf þrjá mánuði til þess að fjalla um málið. Í Sviss taka menn sér miklu lengri tíma en þrjá mánuði til að ræða almennt efni þjóðaratkvæðagreiðslna, sem eru vissulega bindandi. En að gera það með einhverri skemmri skírn er ekki hægt. Allar forsendur eru gerbreyttar.

Ég vil nefna það að í aðdraganda þessarar umsóknar, sem var stöðvuð og menn vilja setja í gang aftur, voru gefnar miklar væntingar um að hægt væri að fá varanlegar undanþágur. Það kom í ljós að það er ekki hægt. Það er hægt að fá tímabundnar undanþágur en það þarf síðan að aðlaga sig að reglum sambandsins sem eru ófrávíkjanlegar. Menn héldu lengi í þá tálsýn að við gætum undanþegið allt okkar hafsvæði undan hafsvæðum Evrópusambandsins, gætum áfram átt okkar 200 mílur og alla þá deilistofna sem þar synda. Svo voru menn komnir yfir í að það yrðu kannski bara staðbundnu stofnarnir. Makríllinn einn, deilistofn, hefur gefið okkur tugi milljarða frá hruni. Það var vissulega heppni. En ef við hefðum verið aðilar í Evrópusambandinu hefði öllum þeim makríl verið landað í Skotlandi, Írlandi og í Evrópusambandsríkjunum. Við værum í miklu verri stöðu. Ég held að þjóðin átti sig alveg á þessu.

Það sem ég velti fyrir mér er: Hvað er það í þessu sem flutningsmenn átta sig ekki á? Hvaða keilur eru þeir að reyna að slá með því að boða til rándýrrar skoðanakönnunar sem er ekki einu sinni bindandi fyrir þingmenn? Fyrir þjóð þar sem 70% þjóðarinnar lýsir yfir að hún vilji ekki ganga í þetta samband. Síðustu fimm ár hafa á bilinu 60–70% af þeim sem taka afstöðu, einhverjir eru óvissir en er ég bara að tala um þá sem taka afstöðu, verið andvígir aðild að þessu sambandi. Við höfum haft góðan tíma til að kynnast sambandinu vel. Það má vel skilja að hér hafi menn í einhverju stundarbrjálæði og taugaveiklun í hruninu látið telja sér trú um að Evrópusambandið væri lausn á einhverjum vanda, en það er svo sannarlega ekki hægt að halda því lengur fram. Langdregnasta efnahagsbjörgunaraðgerð allra tíma er Grikkland. Hræðilegt. 50% af gamla fólkinu fær ekki lyfin sín. Það eru engar krabbameinslækningar þar. Það er meira að segja ekki til gjaldmiðill í sumum sveitaþorpum. þeir nota einhvern nýjan gjaldmiðil af því að það eru engar evrur í þorpinu. Sögurnar sem maður heyrir frá Grikklandi eru hræðilegar. Það er verið að selja sólarstrendurnar, einkavæða þær. Það er eflaust draumur einhverra en ég held ekki þeirra sem flytja þessa þingsályktunartillögu.

Ég bið menn að opna augun. Vissulega er alltaf gaman að tala fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum en ég vil þá að þær séu bindandi. Ég talaði hér og barðist fyrir því að Icesave-samningunum yrði skotið til þjóðarinnar. Það var bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég held að við ættum að innleiða í stjórnarskrána ákvæði um að þjóðin hafi rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um mál. Ég styð það og ég styð líka það að hún hafi frumkvæðisrétt. Mér þykir leiðinlegt ef þessu þingi tekst ekki að ljúka þessum mikilvægu málum. En ég hef enga trú á því að þingmenn séu að slá sér upp með því að hafa skoðanakannanir meðal þjóðarinnar sem kosta 250 milljónir. Ef við ætlum að spyrja þjóðina að einhverju skulum við spyrja hana: Hugnast þér aðild að Evrópusambandinu, já eða nei? Ef fólki hugnast hún ekki er þetta ekkert annað en bjölluat. Hvaða þjóð sækir um aðild að bandalagi sem hún vill ekki ganga í?