145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[17:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki verið ósammála hv. þingmanni um að umræðunni lýkur aldrei um sjálfstæði og fullveldi þjóða og allt það. En við erum aðilar að fleiri samtökum en EES. Við erum t.d. í WTO. Við erum í ýmsum samtökum þjóða. Það eru hins vegar ekki sífellt að koma upp aftur og aftur þingmál ýmist um að fara úr þeim samtökum eða ganga í einhver ný. Ekki aftur og aftur. Ekki árum saman. Ekki þannig að það einkenni stjórnmálaumræðu um árabil. Þetta mál, ESB sérstaklega, ólíkt t.d. EES sem ég hefði nú haldið að menn gætu aldeilis rifist um, er sífellt í umræðunni. Það er sífellt verið að velta því fyrir sér og ræða hvað ef þessir kaflar yrðu opnaðir og hvað ef hitt og menn rífast meira að segja um það hvaða orð eigi að nota yfir þetta, aðlögunarviðræður eða hvað. Það er eitthvað sem við rökræðum kannski einhvern tíma seinna.

Ég get svo sem lítið annað sagt en að ég er ósammála þeirri niðurstöðu hv. þingmanns að vegna þess að umræðunni ljúki aldrei endanlega sé þar af leiðandi ekki sniðugt að halda þjóðaratkvæðagreiðslur, þá séu ekki rök fyrir því að halda bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um málið til þess að útkljá það. Óháð þeim efnisatriðum sem hv. þingmaður fer inn á, snýst aðalmálið fyrir mér um sjálfsákvörðunarréttinn, eitthvað sem ég trúi að við hv. þingmaður eigum sameiginlegt að telja til grunnatriða í mannlegu samfélagi, sjálfsákvörðunarrétt einstaklings og hópa af öllum stærðum og gerðum.

Það er einmitt þess vegna sem mér finnst þetta mál eiga heima í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, til þess að kjósendur sjálfir geti ákveðið hvað eigi að gera og við getum farið að tala um einhverjar aðrar lausnir sem ég tel að sé algerlega kominn tími til að við ræðum líka, með hliðsjón af því að þjóðin mundi segja nei við ESB. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að svo yrði.