145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[17:28]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þingsályktunartillögur binda ekki ókomnar ríkisstjórnir heldur aðeins þær sem sitja. Sú ríkisstjórn sem nú er að völdum er óbundin af þeirri þingsályktunartillögu sem vísað var til um aðildarumsókn. Hún var í fullum rétti til að afturkalla umsóknina. Og það er óforskammað af Evrópusambandinu ef það er skilningur þess að hér hafi ekki viðræðum verið slitið endanlega. Að þær hafi verið settar á ís eða eitthvað slíkt þar til vilhallari ríkisstjórn kemur aftur og heldur áfram viðræðum. Það þætti mér gróft, mjög gróft, í samskiptum Evrópusambandsins og Íslands. (Gripið fram í.) Hér var lýðræðislega kjörin ríkisstjórn sem ákvað að fylgja þeim málum og því umboði sem hún hafði fengið frá kjósendum sínum. Það er alveg skýrt í mínum huga.

En við erum sammála um hversu leiðinlegt það er að stunda bjölluat í Brussel, við erum alveg sammála um að það er átakanlegt. Þá bið ég flutningsmenn þessarar tillögu að draga hana til baka þar til hér er ríkjandi áhugi á aðild að Evrópusambandinu. Vinnum fyrst þá vinnu, byrjum á byrjuninni. Áttum okkur á því að meiri hluti þjóðarinnar vill ekki inngöngu í sambandið, og hún er farin að þekkja þetta samband nokkuð vel og náið. Við skulum fyrst kynna Evrópusambandið eins og það er, vinna í því að þjóðin átti sig á hvað það er. Og síðan, ef hún hefur áhuga, að hefja þá að sjálfsögðu viðræður. En það er enginn áhugi á því nú. Við skulum ekki eyða mörg hundruð milljónum í viðbót. Það kostar 200–300 milljónir að halda þessa skoðanakönnun sem kölluð er ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Það mun kosta mörg hundruð milljónir, ef ekki milljarða, að klára þetta eða leiða til lykta, sem ég held reyndar að sé ekki hægt. Vegna þess að á tímabilinu, það er ekki eins og þetta séu einhverjir samningar, við þurfum að uppfylla eða sýna getu til að uppfylla þessi skilyrði. Og það kostar fjárfestingar sem væri betra að setja í velferðarkerfið okkar, innviðina okkar og annað sem við raunverulega (Forseti hringir.) getum bætt.