145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[17:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrst ætla ég að segja að mér finnst jákvætt við þessa tillögu að hún vekur upp áhugaverðar umræður um eðli þjóðaratkvæðagreiðslna m.a. og vissulega hefur aðeins verið farið inn á Evrópusambandsaðild efnislega.

Mig langar að byrja á því að nefna það sem ég hef nefnt í andsvörum og er skoðun sem ég styrkist sífellt í og hún er sú að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi að vera bindandi (FSigurj: Heyr, heyr.) og ættu ellegar ekki að heita þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég vil þakka hv. þingmanni sem flutti málið fyrir að taka þann möguleika til greina að breyta tillögunni þannig að atkvæðagreiðslan verði bindandi. Ég mundi sjá það fyrir mér að tillagan fæli í sér að fela hæstv. utanríkisráðherra að taka upp aðildarviðræður að nýju eða hvernig sem það væri útfært nákvæmlega lagatæknilega séð, en alla vega að lögð yrði fram hefðbundin þingsályktunartillaga eins og við afgreiðum hér mjög reglulega nema að samþykki Alþingis væri háð samþykki þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá tæki þingsályktunin gildi samkvæmt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu og að sjálfsögðu líka með því skilyrði að Alþingi mundi samþykkja hana sem reyndar lítur nú ekki út fyrir að verði tilfellið, því miður, óháð þessum breytingum.

Annað sem mig langar að gagnrýna við þessa tillögu er það sem hv. 2. þm. Reykv. n. kom stuttlega inn á, en það eru tímamörkin. Það er þó frekar einföld breyting að mínu mati, ekkert mál að breyta þeim. Það eru kosningar reglulega á Íslandi. Að jafnaði, fyrir utan núna í október, eru kosningar af einhverju tagi á Íslandi á þremur af hverjum fjórum árum, þ.e. alþingiskosningar, sveitarstjórnarkosningar og síðan forsetakosningar. Ég hef engar áhyggjur af þessum kostnaði fyrir utan það að í samhengi við fjárlög og mikilvægi lýðræðisins eru 250–300 milljónir einfaldlega ekki há tala. Ég veit að margir geta hneykslast yfir því ef þeir líta á eigin fjárhag en við erum að tala um fjárlög. Þegar um er að ræða fjárlög lýðveldisins Íslands ráðum við léttilega við að auka þó nokkuð mikið við lýðræðið á Íslandi, ekki bara í þessu máli heldur almennt. Sjálfur vil ég benda á að Svisslendingar, eins og hv. 2. þm. Reykv. n. nefnir oft, halda þjóðaratkvæðagreiðslur fjórum sinnum á ári. Þá eru bara ákveðnar dagsetningar þar sem menn fara og greiða atkvæði um allan fjárann. Ekki veit maður til þess að Sviss sé rjúkandi rústir eða í bullandi fátækt vegna þess að þeir hafi eytt öllum peningunum sínum í þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er ekki þannig.

Mér finnst reyndar alltaf gaman að minnast á það að í Sviss er gengið lengra en nokkur hér hefur stungið upp á, af stjórnarskrártæknilegum ástæðum. Þar er föst tala kjósenda sem þarf að biðja um þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki prósenta eða hlutfall kosningarbærra manna þannig að eftir því sem þjóðinni fjölgar lækkar prósentan af kjósendum sem þarf til þess að neyða hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar af leiðandi verða þær smátt og smátt tíðari með tímanum. Og þrátt fyrir að hægt sé að gagnrýna Sviss fyrir slaka kosningaþátttöku þá erum við að tala um Sviss. Ekki Sómalíu, ekki Argentínu heldur Sviss, eitt best heppnaða ríki í sögu mannkyns, þori ég að fullyrða, og vissulega efnahagslega.

Nú er ég að átta mig á því hvað ég hef lítinn tíma hérna. Ég hef verið þeirrar skoðunar að frá upphafi hefði þetta ferli haft gott af því að fara í svokallaða tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. að það hefði verið þjóðaratkvæðagreiðsla um þingsályktunina í upphafi, nr. 1 frá 137. þingi, og síðan aftur þegar samninguri hefði legið fyrir. Þótt þetta tíðkist ekki mundi ég segja að það sé í raun og veru einn af veikleikum Evrópusambandsins. Skynjun almennings þar og annars staðar er sú að lýðræðislegur brestur sé til staðar. Hvort sem það er lögtæknilega rétt eða ekki er skynjunin í það minnsta sú og mér finnst mikilvægt að bregðast við því. Ég held að við hefðum getað sýnt mjög gott fordæmi með því að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég fullyrði alla vega að við værum á öðrum stað í umræðunni ef svo hefði verið. Við værum ekki að kýta um þetta hérna. Það væri skýrara hver leiðsögnin væri, spurningar um lögmæti væru útkljáðar og sömuleiðis hygg ég að það hefði haft áhrif á viðræðurnar sjálfar vegna þess að meðan á umsóknarferlinu stóð var deilt um þetta í þingsal og víðar í samfélaginu, eðlilega, vegna þess að lögmætið var ekki jafn skýrt og það hefði getað verið.

Ég ætla aðeins að tala um Brexit. Óháð því hvað mér finnst um þá niðurstöðu held ég að niðurstaðan í hinni ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um að segja skilið við Evrópusambandið endurspegli þá skynjun almennings að hann hafi ekki verið spurður nógu ítarlega og hann hafi ekki verið nógu vel upplýstur frá upphafi um hvað þetta fyrirbæri væri, Evrópusambandið, hverjir væru kostirnir og hverjir gallarnir. Auðvitað var umræðan þar á margan hátt algerlega úti á túni eins og gengur og gerist í pólitíkinni og allt það en ég held samt að þetta endurspegli ekki bara að kjósendur í Bretlandi hafi farið eftir röngum gögnum, ég held líka að ástæðan sé að hluta til réttmæt skynjun almennings. Það er tilhneiging meðal stjórnmálamanna í Evrópusambandinu eins og annars staðar að kæra sig ekkert sérstaklega mikið um hvað almenningi finnst, svo lengi sem markmiði stjórnmálamannanna er náð. Þetta er auðvitað mannlegur galli sem mun alltaf endurspeglast í stjórnmálum og þess vegna þykir mér svo mikilvægt að svona ákvarðanir í þjóðaratkvæðagreiðslu séu bindandi. Mér finnst það vera mjög mikið grundvallaratriði.

Hvað varðar Evrópusambandið efnislega, svo ég noti örfáar mínútur í það, þá hef ég oftast sagt, þó að ég eigi til að skipta um skoðun, milli daga jafnvel, að ég gæti ekki gert upp hug minn um hvort ég væri hlynntur því að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu fyrr en samningaviðræðum væri lokið. Ef þær eru komnar í strand, þá eru þær bara komnar í strand. Þá er það bara niðurstaðan. En það átti eftir að opna tvo kafla, landbúnaðarkaflann og sjávarútvegskaflann. Lykilkaflarnir. Það er endalaust hægt að tala um hvað hefði verið hægt og hvað hefði ekki verið hægt. Þá gleymist alltaf að Evrópusambandið er í sífelldri mótun og þróun. Hvað ef Evrópusambandið hefði ekki tekið neitt af þessu í mál eftir að við hefðum opnað kaflana og rætt þá? Ókei, þá hefði það verið niðurstaðan. Allt í lagi, meinti ég, virðulegi forseti. Biðst forláts á enskunni eða hvaða tungumál þetta var. En hvað varðar evruna eru auðvitað alltaf kostir og gallar. Það er alltaf hægt að finna ákveðin tímabil þar sem tiltekin peningaverkfæri eru góð og tiltekin peningaverkfæri eru slæm. Akkúrat núna á Íslandi t.d. er mjög fínt að vera með verðtryggt lán. Vextirnir eru það lágir að greiðslubyrðin er mun lægri en af óverðtryggðu láni. Einmitt núna. En ef maður tekur fyrir tímabilið frá 2008–2010, tja, ekki svo mikið. Þá voru aðrar aðstæður. Það er alveg eins með evruna eða hvaða gjaldmiðil sem er. Evran hefur ákveðna styrkleika sem felast fyrst og fremst í stærð hagkerfisins. Hún hefur ákveðna veikleika sem felast í ósveigjanleikanum sem henni fylgir. Það er svolítið erfitt að útskýra fyrir fólki sem telur að einhver ákveðin peningaverkfæri séu einfaldlega góð eða einfaldlega slæm að þau eru alltaf hvort tveggja. Þetta eru verkfæri sem hafa alltaf kosti og galla. Evran er engin undantekning á því.

Nú gætu lærðari menn en ég farið út í það hvaða mistök hafa verið gerð við upptöku evrunnar. Eftir stendur að hún er stærsti gjaldmiðill í 500 milljón manna samfélagi sem kallast Evrópusambandið. Þetta er gríðarlega stórt hagkerfi. Það er enn þá til staðar. Það eru vissulega vandræði en það er enn þá til staðar. Ég hef ekki trú á þessum dómsdagsspám um Evrópusambandið. Ég hef ekki trú á þeim þótt eitt ríki fari úr því. Það mætti líka færa þau rök að það sé bara fínt að það fordæmi sé til. Þá geta menn í framtíðinni a.m.k. gert ráð fyrir að sá möguleiki sé raunhæfur, að það sé mögulegt að ríki fari úr sambandinu og það þurfi að vera til einhver áætlun um það hvernig skuli standa að því. Svo gæti það bara komið aftur til baka. Mörgum finnst fáránlegt að vera alltaf að skipta um skoðun. Ekki mér. Mér finnst það reyndar mjög sjálfsagt.

Síðast en ekki síst langar mig aðeins að ýta við því sem er oft sagt um þessar viðræður, að þetta séu aðlögunarviðræður. Samt man ég ekki eftir einu einasta þingmáli sem við höfum afgreitt á þinginu sem var ætlað að taka til baka allan þann lagalega skaða sem ESB-umsóknin á að hafa valdið okkur. Ekki einu máli. Hins vegar vorum við í dag að greiða atkvæði um tvö EES-mál. Þar greiddu þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins atkvæði með EES-máli, sem er aðlögunarmál. Þetta eru allt aðlögunarmál vegna þess að EES þýðir aðgengi að markaðnum gegn því að við tökum upp þessi mál.

Mig langar á lokasekúndunum að vitna í umsögn frá Viðskiptaráði Íslands við eitt þingmálið í dag. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Að mati Viðskiptaráðs ætti löggjöf hér á landi að vera í samræmi við löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu eftir því sem mögulegt er.“

Ástæðan er ekki sú að Viðskiptaráði sé illa við Ísland, vilji brenna fánann og skipta um þjóðsöng heldur vegna þess að það er skynsamlegt að hafa samhæfðar reglur. Nú langar mig gjarnan að lengja ræðuna, virðulegi forseti, en skal virða klukkuna í þetta sinn.

(Forseti (EKG): Sem endranær, væntanlega.)