145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu.

804. mál
[17:50]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um aðild Íslands Geimvísindastofnun Evrópu. Flutningsmenn eru ásamt þeim sem hér stendur hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir, Páll Valur Björnsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Róbert Marshall, Össur Skarphéðinsson, Óttarr Proppé, Líneik Anna Sævarsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Svandís Svavarsdóttir.

Tillagan er einföld, efnislega, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að sækja um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu.“

Geimvísindastofnun Evrópu, á ensku European Space Agency, skammstafað ESA og hér eftir kallað það, var sett á laggirnar árið 1975 og eru aðildarríki hennar nú 22 talsins. Öll Norðurlöndin eru aðilar að ESA, að frátöldu Íslandi.

Markmið ESA er að vera samstarfsvettvangur Evrópuríkja í geim- og tæknirannsóknum. ESA eru sjálfstæð samtök en eiga í nánu samstarfi við Evrópusambandið um rammaáætlanir á sviði geim- og tæknivísinda. Hvert aðildarríki á fulltrúa í ráði ESA og hefur eitt atkvæði, óháð stærð og fjárframlögum viðkomandi ríkis.

Helstu verkefni stofnunarinnar lúta m.a. að framkvæmd og útfærslu langtímastefnu í geimvísindum og tillögum um sameiginleg markmið aðildarríkjanna í geimvísindum sem og annarra alþjóðastofnana. ESA sér einnig um samræmingu evrópsku geimferðaáætlunarinnar og áætlana aðildarríkjanna, einkum er varðar þróun gervihnattabúnaðar.

Starf stofnunarinnar snýst þó ekki síður um rannsóknir á jörðinni og eru áherslur hennar því ekki einungis á sviði geimvísinda heldur einnig á ýmsum sviðum sem varða fyrst og fremst jörðina, svo sem veðurfræði, líffræði og jarðfræði. Einnig er lögð áhersla á rannsóknir á sviðum eðlisfræði, efnafræði, stærðfræði, tölvuvísinda og svo mætti lengi telja.

Mikil þörf er á að stjórnvöld móti atvinnustefnu á Íslandi með nýjum vaxtartækifærum þar sem vel menntað vinnuafl nýtist til fulls. Menntað fólk flytur úr landi og yrði aðild Íslands að ESA þáttur í að efla atvinnumöguleika á sviði hvers konar tækni og vísinda heima fyrir. Tillagan felur í sér aukningu á útgjöldum ríkissjóðs en sú aukning ætti að skila sér til baka í formi verkefna sem síðan styðja við innlendar rannsóknir, ásamt því að veita ný menntunar- og atvinnutækifæri til frambúðar.

Aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu mundi skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri og gera háskólamenntuðu fólki auðveldara að nýta sérþekkingu sína hérlendis, sjálfu sér og þjóðinni allri til hagsbóta.

Líklegt er að helstu verkefnin sem bærust til Íslands við aðild yrðu fyrst um sinn hugbúnaðarverkefni. Íslenskur hugbúnaðariðnaður er rótgróinn, þróaður og framsækinn og ætti að hafa alla burði til þess að takast á við slík verkefni. Ein helsta áskorunin felst líklega í því að íslenskir sérfræðingar sjá fleiri og fjölbreyttari tækifæri erlendis, en tillögunni er ætlað að sporna við og helst snúa við þeirri þróun. Aðildarríkin ákveða þó sjálf á hvaða sérsviðum þau vilja helst taka þátt.

Þá má ætla að aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu mundi stuðla að auknum áhuga barna og ungmenna á raungreinum sem spennandi viðfangsefni sem nýtist til framtíðar.

Þótt tillagan geti í fljótu bragði virst róttæk telja flutningsmenn tillögunnar aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu eðlilegt framhald þess vísindastarfs sem þegar hefur verið byggt upp á Íslandi. Íslenskir vísindamenn nota nú þegar gögn frá Geimvísindastofnun Evrópu, m.a. við rannsóknir á jarðhræringum og veðurfari. Ísland stendur framarlega í rannsóknum á segulsviði jarðar og hingað til lands koma vísindamenn á vegum stofnunarinnar til þess að prófa tæki sem eru t.d. notuð í gervihnetti.

Aðildarríkjum er sameiginlega skylt að standa undir um þriðjungi af starfsemi stofnunarinnar en þar fyrir utan eru valfrjáls verkefni fjármögnuð af aðildarríkjum. Hverju aðildarríki er í sjálfsvald sett í hvaða valfrjálsu verkefnum það tekur þátt og því eru fjárframlög misjöfn eftir því hvaða verkefnum hvert ríki ákveður að taka þátt í. Í staðinn fjárfestir stofnunin í aðildarríkjum með úthlutun verkefna sem efla rannsóknir og nýsköpun og miðast þá fjárhæðin við fjárframlag frá viðkomandi ríki.

Þótt stofnunin sé ekki hluti af Evrópusambandinu er mikil og náin samvinna þar á milli og um 22% af árlegum fjárframlögum til stofnunarinnar koma frá Evrópusambandinu.

Í töflu í fylgiskjali með tillögunni má glöggva sig á mögulegum fjárframlögum miðað við landsframleiðslu Íslands árið 2015 borið saman við nokkur aðildarríki og það hlutfall landsframleiðslu sem þau ríki lögðu til sama ár. Hvet ég áheyrendur til að glöggva sig á því skjali til að upplýsast um kostnaðardæmi.

Fyrir utan allt þetta má nefna, þótt það sé ekki beinlínis markmið með tillögunni að laga það, að íslenskir ríkisborgarar í dag geta ekki orðið geimfarar. Það er ekki hægt fyrir íslenskan ríkisborgara að verða geimfari nema með því að öðlast ríkisborgararétt í landi sem tilheyrir stofnun á borð við ESA, Geimvísindastofnun Evrópu, eða fá bandarískan ríkisborgararétt til þess að taka þátt í starfi NASA. Að vísu geta borgarar tekið þátt í ýmsu starfi en við erum hins vegar ekki aðilar að ESA enn sem komið er. En góðu fréttirnar eru þær að aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu mundi gera íslenskum ríkisborgurum kleift að verða geimfarar, alla vega í prinsippinu. Slæmu fréttirnar eru þær að ekki eru lausar stöður geimfara að svo stöddu og reyndar einungis þrisvar í sögu stofnunarinnar hefur verið farið í það verkefni að sanka að sér nýjum geimförum, þannig að það er í sjálfu sér ekki eitthvað sem við mundum hoppa í, en mér þótti gaman að nefna þetta, því að mér finnst bara sorglegt að íslenskur ríkisborgari geti aldrei orðið geimfari. Mér finnst það mjög leiðinlegt.

En eins og ég segi er það ekki markmið tillögunnar að laga það í sjálfu sér heldur fyrst og fremst að efla vísindastarf, fá hingað til lands vísindaverkefni sem Ísland hefur þekkingu til þess að kljást við. Vandinn er sá að sérfræðingarnir okkar fara oft til annarra landa í leit að tækifærum sem þar finnast. Og þótt tillagan virðist við fyrstu sýn vera róttæk, eins og fyrr greindi, er stofnunin hugsuð til þess að margar þjóðir geti tekið saman þátt í svona verkefnum. Hugmyndin felur ekki í sér að ryðja Reykjavíkurflugvöll og reisa þar skotpall, eins og einhverjum gæti kannski dottið í hug í kímni, heldur snýst þetta um að gera litlum aðilum, svo sem Íslandi, kleift að taka þátt í þessum mikilvægu rannsóknum án þess að vera með alla þá innviði sem t.d. Bandaríkin hafa til að standa alfarið að sjálfstæðri geimferðaáætlun. Enda væri það fráleit hugmynd að gera slíkt á Íslandi eins og er fullkomlega augljóst.

Enn fremur er vert að minnast á að þegar kemur að vísindastarfi sem þegar er starfrækt á Íslandi vantar oft fjármagn. Ég fékk reyndar athugasemd fyrr í dag um að það væri þegar vísindastarf sem mætti einfaldlega fá meira fjármagn og fleira starfsfólk. En ég vil meina að þessi tillaga, yrði hún samþykkt, mundi gera því auðveldara fyrir, enda er markmiðið að auka vísindastarf en alls ekki að draga úr því, ekki á sviði neinna vísinda, enda sem fyrr greinir eru stunduð í Geimvísindastofnun Evrópu svo gott sem öll eða næstum því öll raunvísindi, svo sem eðlisfræði, efnafræði, stærðfræði, tölvuvísindi og ýmislegt sem Íslendingar eru ágætir í. Og vel á minnst, í ljós hefur komið að Íslendingar eru ágætir í stjörnufræði. Því höfum við fullt erindi inn í þessa stofnun þrátt fyrir nafnið.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt að svo stöddu heldur hlakka ég til að sjá hvernig umræðan um málið verður og vona að fólk muni sjá með tímanum að þetta er eðlilegt, hógvært og í raun og veru sjálfsagt skref fyrir áframhaldandi þróun vísindastarfs og hátækniiðnaðar á Íslandi.