145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu.

804. mál
[18:01]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að venja mig á að vera ekki að ákveða hluti sem ég er ekki í góðri stöðu til að ákveða, þrátt fyrir að vera þingmaður. En ég ímynda mér að þær stofnanir sem munu hvað helst koma þessu við verði háskólarnir, líklega allir, hugsanlega alla vega, vissulega þessir stóru í Reykjavík og á Akureyri. Þar er starfsemi sem ég hygg að mundi hagnast á þessu öllu saman. Sömuleiðis Rannís og sjálfsagt ýmis fyrirtæki. Þetta er auðvitað útfærsluatriði sem ég kann hreinlega ekki skýr deili á. Manni dettur Veðurstofan í hug og ýmsar slíkar stofnanir sem eru ýmist í raunvísindum á borð við hugbúnaðargerð eða einhverju því um líku en einnig þeim greinum sem varða náttúruna. Sumir segja að Ísland sé einfaldlega eldfjall. Það er hægt að líta á það þannig, hugsa ég. Hér er mikil eldfjallavirkni. Hér eru tíðir jarðskjálftar og það er mjög margt sem er alveg þess virði að rannsaka á Íslandi. Eins og kemur fram í greinargerðinni er það þannig að hingað koma vísindamenn frá Geimvísindastofnun Evrópu til þess að prófa búnað vegna aðstæðna á Íslandi. Ég hugsa að það séu fleiri stofnanir en ég þekki hreinlega sem mundu á einhvern hátt koma að þessu, í það minnsta í viðræðum eða því um líku. Þetta er eitthvað sem ég mundi miklu frekar treysta sérfræðingum til að ákveða, en ég mundi búast við því að það yrði ríkt samráð um hvað þyrfti að gera. Það er auðvitað alltaf keppst um fjármagn og eins og ég fór aðeins inn á áðan er ýmislegt vísindastarf á Íslandi sem er nú þegar undirfjármagnað. Það má ekki gleyma því. Það er mikilvægt að taka það með inn í reikninginn. En eins og ég sagði er hugmyndin sú að auka en ekki draga úr vísindastarfi.