145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

náttúruvernd.

87. mál
[18:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er reyndar pínulítið ósammála hv. þingmanni um það sem hann sagði um frelsið, vegna þess að ég tel þetta vera frelsisskerðingu en hins vegar fullkomlega lögmæta. Ég vil hins vegar hrósa honum fyrir það að kalla hlutina það sem þeir eru. Þetta kemur oft upp í umræðu um tjáningarfrelsi. Þegar menn telja sig skerða það með réttu þá hætta þeir að kalla það skerðingu á tjáningarfrelsi. Þetta er auðvitað skerðing á frelsi en eins og ég segi algjörlega lögmæt, hér eru mjög skýrir, augljósir og ríkir almannahagsmunir í húfi sem réttlæta þetta fullkomlega. Þannig að ég ætla ekkert að kýta við hv. þingmann um það í sjálfu sér.

Spurning mín varðar hins vegar ekki það heldur langar mig að vita hvort hv. þingmaður geti varpað ljósi á það hvaðan þessi upphæð kemur. Það stendur 100 þús. kr. í frumvarpinu, hljómar ekkert verri en einhver önnur upphæð, en ég velti fyrir mér hvort upphæðin sé fengin frá einhverjum ákveðnum stað, hvort einhver ákveðin viðmið hafi ráðið því hvaða upphæð var valin eða hvort þetta sé einfaldlega tala sem er talin vera nógu ógnvekjandi til þess að menn stundi einfaldlega ekki þessa iðju.