145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

náttúruvernd.

87. mál
[18:09]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alltaf hollt að velta því fyrir sér eins og hv. þingmaður nefnir hvenær við erum að skerða frelsi fólks. Það má alveg segja að það sé verið að skerða frelsi fólks til þess að henda rusli. En þá kemur maður náttúrlega að því sem ég held að allir hugmyndafræðingarnir sem voru að berjast fyrir frelsi og leggja út af frelsi sögðu, að frelsi fylgdi alltaf ábyrgð. Ef maður hendir rusli þá hefur það afleiðingar í för með sér. Það er eins og þegar við, án þess að ég vilji bera það saman, heftum frelsi fólks til þess að skaða annað fólk líkamlega og með öðrum hætti. Ég held að þetta sé mjög eðlileg frelsisskerðing. En það er hins vegar alltaf hollt að velta þessu upp.

Varðandi upphæðina þá skal ég viðurkenna að slíkar sektir tíðkast að vísu í miklu fleiri löndum. Ég nefndi Bandaríkin vegna þess að ég og mín fjölskylda höfum ferðast þar um og þetta vakti athygli mína þá. Þar var eitt mjög frægt átak, svo ég leyfi mér nú að sletta enskri tungu, virðulegi forseti, (HHG: Passa sig.) sem var kallað „Don't Mess vith Texas“. Þetta stóra ríki, sem er náttúrlega landfræðilega miklu stærra en flest Evrópuríki og fjölmennara en mörg í það minnsta, fór í heildarátak til að uppræta sóðaskap. Það voru miklu hærri upphæðir í sektir þar en 100 þús. kr. Maður getur aldrei komist að neinni vísindalegri niðurstöðu þegar kemur að þessum upphæðum. En hv. þingmaður hitti naglann á höfuðið þegar hann spurði hvort hugsunin væri sú að þetta væri ógnvekjandi tala.