145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

náttúrustofur.

647. mál
[18:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Undir svona fínni ræðu um náttúrustofur og með þann ágæta hv. þingmann sem nú gegnir embætti hæstv. forseta þá get ég ekki annað en tekið undir þessa tillögu, þótt ekki væri nema til að láta hugann líða aftur til þeirra daga þegar ég og hv. þingmaður og hæstv. forseti, Einar K. Guðfinnsson, vorum yngri og sprækari og beittum okkur mjög fyrir því að vegur náttúrustofa yrði meiri en þá var. Sérstaklega vil ég leggja lofsorð á hæstv. forseta fyrir þann atbeina sem hann á sínum tíma greiddi þá ræfli sem nýsestur var í stól umhverfisráðherra og vildi byggja náttúrustofu í Bolungarvík. Þá skorti ekki atfylgi hæstv. forseta og með honum dugði það til þess að það tókst. Mín reynsla bæði sem þingmanns og ráðherra hér áður fyrri, sérstaklega þegar ég var umhverfisráðherra, af náttúrustofum var mjög jákvæð. Ég geri mér grein fyrir því að síðan hafa málin þróast með ýmsum hætti og komið hafa fram nýjar stofnanir sem sums staðar starfa við hlið þeirra, setur, fræðasetur sem tengjast háskólunum. Ég held þess vegna að sú tillaga sem hv. þingmaður mælir fyrir um að komið verði fót starfshópi til að meta reynsluna af náttúrustofum sé mjög tímabær. Ég vona að af þeirri vinnu spretti hugmyndir sem efla rannsóknir og eftirlit á náttúru Íslands.

Ég vil að endingu segja, um leið og ég lýsi stuðningi við þessa tillögu og vona að hún verði samþykkt áður en þing tygjar sig til kosninga, að það er mín skoðun að sérstaklega fyrir hinar dreifðu byggðir hafi náttúrustofurnar verið mjög velkomin viðbót í atvinnu- og rannsóknir á viðkomandi svæðum. Það er ekki síst byggðavinkillinn sem ég held að við eigum líka að skoða í þessum efnum.