145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

náttúrustofur.

647. mál
[18:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað en komist á flug og það jafnvel neistar af mér þegar ég kemst í umræðu um náttúrustofur. Ég tel að þegar lagt var út á þann veg fyrir 20, 25 árum þá hafi verið brotið í blað. Ég tel að þá hafi verið skapaðir mjög miklir möguleikar til að efla rannsóknir á náttúru Íslands, sömuleiðis til að byggja upp lítil vísinda- og fræðasamfélög í hinum dreifðu byggðum. Hvað eru margar náttúrustofur núna? Átta eða níu talsins, ég man það ekki, (Gripið fram í: Átta.) en þær hafa allar skipt máli. Þróunin hefur hins vegar verið sú, því miður, að stjórnvaldið hefur ekki alveg alltaf gert sér grein fyrir mikilvægi þeirra og möguleikunum sem í þeim felast, og heldur hefur verið dregið úr framlögum til þeirra frá ríkisvaldinu. Þeim hefur ekki verið lyft með þeim hætti sem hefði verið hægt að gera. Ég og við sem börðumst fyrir þeim á sínum tíma, eins og sá ágæti hv. þingmaður sem situr hér bak mér, hæstv. forseti, sáum fyrir okkur að utan um þessa litlu kjarna mundu síðan hlaðast frekari viðfangsefni, frekari starfsmenn. Það sem vantar í mörg af þessum ágætu samfélögum úti á landi eru menntaðir einstaklingar, það þarf að lyfta menntastiginu. Þetta er ein leið til þess.

Ég er þeirrar skoðunar að margvísleg verkefni sé að finna hjá ýmsum stofnunum sem náttúrlega allar eru samankomnar hér, á suðvesturhorninu, sem væri hægt að færa þarna út og láta þær stofur vinna. Ég sé líka fyrir mér að aukið samstarf við íslenska háskóla en ekki síður útlenda háskóla geti skapað veruleg tækifæri til framtíðar. Ég held að margir háskólar, sem hafa áhuga og hafa fólk innan sinna vébanda sem hefur áhuga á rannsóknum og ýmsu sem tengist sérstaklega náttúru Íslands, séu ákaflega uppnumdir yfir þessum tækifærum. Það þarf að koma þessu á framfæri. Það er auðvitað ríkisvaldsins að gera það.

Ég ætla að spara mér að halda langa ræðu um náttúrustofur eins og mig (Forseti hringir.) mundi langa til, en lýsi aftur og ítrekað stuðningi mínum við þessa vinnu þó að ég hefði auðvitað (Forseti hringir.) viljað að þetta væri róttækari tillaga og byndi (Forseti hringir.) ríkisvaldið til frekari stuðnings við náttúrustofurnar.